Innlent

Fráleitt að lögmenn SA komi að verkfallsbrotum

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vísar því á bug að samtökin hafi aðstoðað stjórnendur Íslandshótela við að brjóta lög, en formaður Eflingar sakaði lögmenn samtakana í dag um að hjálpa yfirmönnum og eigendum að stunda verkfallsbrot.

Deiluaðilar í kjaradeilu SA og Eflingar skutu föstum skotum sín á milli í dag en deilan er enn í algerum hnút. Samkvæmt heimildum fréttastofu standa þó vonir til þess að fá úrskurð sem fyrst um það hvort Eflingu beri að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt svo hægt sé að greiða atkvæði um miðlunartillögu hans, en Efling kærði úrskurð héraðsdóms um afhendingu gagnanna til Landsréttar.

Verkfall starfsmanna Íslandshótela sem hófst á þriðjudag stendur enn yfir.

Formaður Eflingar tók þátt í verkfallsvörslu ásamt fjölmennum hópi og birti myndband á facebook síðu sinni þar sem ásakanirnar um brotin koma fram.

Framkvæmdastjóri SA vísar þessu algerlega á bug.

„Auðvitað er fráleitt, að ef að verkfallsbrot væru í gangi, að lögmenn samtaka atvinnulífsins kæmu að þeim. Það eru engin verkfallsbrot í gangi. Efling virðist ekki átta sig á að verkfallið nær aðeins til félagsmanna Eflingar á þessum tilteknu hótelum.“

SA sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem verkfallsverðir Eflingar eru sakaðir um ógnandi hegðun.

„Mér finnst framkoma þeirra í garð starfsfólks Íslandshótela einkennast af dónaskap og yfirgangi. Við hljótum að gera þá kröfu hvert til annars að við sýnum fólki virðingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×