Skoðun

Vinnum öll saman að því að auka farsæld barna

Óskar Dýrmundur Ólafsson skrifar

Á dögunum skrifuðu lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Suðurmiðstöð og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti undir samstarfsyfirlýsingu um að vinna enn frekar saman til að stuðla að farsæld barna og ungmenna í viðkvæmri stöðu.

Með samstarfsyfirlýsingunni er þjónustuveitendum sem starfa með börnum og fjölskyldum þeirra gert að vinna saman í þverfaglega samstarfi. Hlutverk þeirra er að fylgjast með og greina vísbendingar um að þörfum barna sé ekki mætt á fullnægjandi hátt og bregðast þá við á viðeigandi hátt.

Í stefnumörkun Reykjavíkurborgar er skýrt kveðið á um aukið samstarf þjónustuveitenda sem er ætlað að skila börnum og unglingum aukinni farsæld. Í lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar er tekið í sama streng. Í aðgerðaáætlun stefnunnar er lögð áhersla á forvarnir til að bæta líðan barna og ungmenna, og mikilvægi samstarfs lykilaðila sem sinna þjónustu við þau. Sömu áherslur um samstarf og samráð er að finna í velferðarstefnu Reykjavíkurborgar.

Miðstöðvar Reykjavíkurborgar hafa til áratuga þróað samstarf í hverfum borgarinnar, þvert á stofnanir Reykjavíkurborgar, íbúum til hagsbóta. Síðustu 3 ár hafa velferðar- og skóla- og frístundasvið þróað verkefnið Betri borg fyrir börn þar sem stjórnendur þessara stofnana í miðstöðvunum deila vinnuaðstöðu, starfa saman í teymum og leggja allt kapp á að styðja börn í þeirra nærumhverfi, m.a. í skólum og frístundastarfi. Þess utan hefur byggst upp mikið samstarfsnet í hverfum borgarinnar með þátttöku íþróttafélaga, bókasafna, sundlauga og annarra sem sinna frístunda-, menningar og frístundastarfi fyrir börn.

Þessi samstarfsyfirlýsing byggir á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021. Þau skylda þá sem veita þjónustu til þess að efla eða tryggja farsæld barna og ungmenna, hvort sem hún er hluti af stjórnsýslu ríkis, sveitarfélags eða einkaaðila til að:

1. Fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu.

2. Bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.

3. Hafa samráð sín á milli með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra.

Hér stíga yfirvöld fram með lög, stefnumörkun og aðgerðir til þess að undirstrika þetta í staðbundnu samhengi. Byggt er á ómetanlegri samstarfsreynslu kennara, þjálfara, stjórnenda, ráðgjafa, lögreglumanna, heilbrigðisstarfsfólks og annarra sem koma að stuðningi barna í nærsamfélagi þeirra. Samstarfsyfirlýsingin auðveldar við að styðja börn og fjölskyldur þeirra á heildrænan hátt. Öll getum við í þorpinu eða hverfinu okkar hjálpað til.

Höfundur er framkvæmdastjóri Suðurmiðstöðvar.




Skoðun

Sjá meira


×