Skoðun

Á­hyggju­fullir upp­lýsinga­fræðingar

Anna Kristín Stefánsdóttir, Harpa Rut Harðardóttir, Irma Hrönn Martinsdóttir, Kristína Benedikz, Unnur Valgeirsdóttir og Vigdís Þormóðsdóttir skrifa

Upplýsing, fagfélag á sviði bókasafns- og upplýsingafræða hélt pallborðsumræður um stöðu stéttarinnar þann 26. janúar sl. Þar áttu orðið landsbókavörður, borgarbókavörður, framkvæmdastjóri Landskerfis bókasafna, formaður stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga, prófessor í Upplýsingafræði Háskóla Íslands og verkefnastjóri á Landsbókasafni – Háskólabókasafni sem var fulltrúi áhyggjufullra upplýsingafræðinga. Tilefni fundarins voru áhyggjur stéttarinnar yfir endurteknum atvinnuauglýsingum í sérfræðistörf á bókasöfnum þar sem auglýst er eftir umsækjendum með háskólamenntun sem nýtist í starfi, fremur en að fara skýlaust fram á háskólamenntun í upplýsingafræði. Þessi þróun hefur vakið nokkurn ugg hjá stéttinni, sem þykir réttilega vegið að sínum hagsmunum.

Skortur á fagmenntuðum upplýsingafræðingum

Það sem forstöðumönnum var tíðrætt um á pallborðinu var að alla jafna sæki ekki nægilega margir hæfir upplýsingafræðingar um auglýstar stöður, eða jafnvel að engin umsókn berist frá upplýsingafræðingi. Því hafa forstöðumenn brugðið á það ráð að auglýsa eftir starfsfólki með háskólamenntun sem nýtist í starfi til þess að fá fleiri umsóknir og tryggja sig fyrir því að fá ekki á sig kærur frá faglærðum upplýsingafræðingum sem væru ekki metnir hæfir í starfið.

Margar fagstéttir glíma við að stéttin sé fáliðuð en lausnin getur varla verið að stofnanir verji sig fyrir kærum með því að slá af kröfum um fagþekkingu. Nær væri að setja fagþekkingu í fyrsta sæti og efla hana með því að skapa hvata fyrir nýliðun í faginu. Það er fullkomlega eðlilegt að stofnun sé kærð fyrir að ráða ekki einstakling sem hefur sérmenntun í faginu umfram aðra; það er sú lagalega leið sem við höfum til að verja fagstéttir. Það er í raun ótrúlegt að forstöðumenn nýti sér þessa afsökun og velji þá leið að auglýsa eftir einstaklingi með hvaða háskólamenntun sem er í störf upplýsingafræðinga.

Ef staðan er sú að það sé raunverulegur skortur á upplýsingafræðingum mætti líta á það sem raunverulegt sóknarfæri í markaðssetningu fyrir nám í upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Einnig mætti nota þessi rök til þess að berjast fyrir betri launum stéttarinnar; samkvæmt þessu ættu þeir fáu upplýsingafræðingar sem eru í atvinnuleit að geta valið úr sérfræðistörfum og gert háar launakröfur í samræmi við sérfræðiþekkingu sína. Það er skammsýni að ráða fólk með aðra menntun í þessi sérfræðistörf, sem kemur á endanum niður á stéttinni, faginu og gæðum þess starfs sem unnið er á bókasöfnum. Það gefur auga leið að hvatinn fyrir því að leggja fyrir sig nám í upplýsingafræði minnkar ef önnur háskólamenntun er metin jöfn til að ganga í störf upplýsingafræðinga.

Nám er fræðilegur grunnur

Sú skoðun heyrðist á pallborðinu að það að þurfa að klára meistaranám til þess að fá að starfa sem upplýsingafræðingur væri óþarflega íþyngjandi og hamli nýliðun í stéttinni. Nám í upplýsingafræði var fært upp á meistarastig í byrjun aldarinnar, eins og fleiri námsgreinar á borð við náms- og starfsráðgjöf, blaða- og fréttamennsku og mannauðsstjórnun. En það eru nú um 10 ár síðan sú breyting var gerð og ef það er ekki raunhæft að færa námið aftur niður á grunn-námsstig, eða bæta við grunnnámi í upplýsingafræði, er öll umræða um að námsstigið sé íþyngjandi ekkert annað en fyrirsláttur til að afvegaleiða umræðu um stöðu stéttarinnar. Svona niðrandi umræða um framhaldsmenntun og óþarfa hennar heyrist varla þegar um er að ræða aðrar sérfræðistéttir með meistaramenntun, til að mynda þær sem taldar eru upp hér að ofan.

Námið í upplýsingafræði er okkar fagmenntun og undirbýr okkur fyrir atvinnumarkaðinn. En eins og önnur sérfræðistörf er háskólamenntun hinn faglegi grunnur sem starfsreynsla síðan byggir á og skilar hæfum starfskrafti. Ef fagmenntunin er ekki til staðar, eða vanmetin kerfisbundið, molnar undan gæðum starfsemi bókasafna, hægt og örugglega.

Fjölbreytt verkefni upplýsingafræðinga

Störf upplýsingafræðinga eru mjög fjölbreytt. Þeir starfa á öllum skólastigum, sérfræðisöfnum, ráðuneytum og rannsóknarstofnunum. Starfssvið þeirra felur meðal annars í sér að skrá allan safnkost og rannsóknarafurðir þjóðarinnar og gera aðgengilegan. Auk þess er kennsla í upplýsingalæsi, svo sem að meta áreiðanleika heimilda og ábyrga notkun þeirra, veigamikill þáttur í starfinu. Mikilvægi upplýsingalæsiskennslu eykst í sífellu á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta. Ekki má heldur gleyma öllum skjalastjórum landsins, en skjalastjórn er hluti af námi í upplýsingafræði.

Eðlilega eru ýmis störf á bókasöfnum sem henta betur öðrum en upplýsingafræðingum, til að mynda hin mikilvægu störf bókavarða. En á meðan starfið felur í sér verkþætti eins og aðföng, skráningu, varðveislu, stjórnun, upplýsingaþjónustu, miðlun og öflun upplýsinga og upplýsingalæsi þá skýtur það skökku við að auglýsa ekki eftir manneskju sem hefur fjárfest í námi þar sem einmitt þessir verkþættir eru markvisst kenndir.

Það var áhugavert að heyra sjónarmið forstöðumanna stærstu bókasafna landsins, en ljóst er að það hefði þurft lengri tíma til að gefa félagsmönnum tækifæri á að koma með spurningar og tjá sína skoðun. Okkur vantar upplýsingar úr grasrótinni; hvað upplýsingafræðingum finnst um stöðu stéttarinnar, atvinnuauglýsingar, atvinnutækifæri, námið, endurmenntun o.s.frv.

Það er sárt að hugsa til þess að stærstu bókasöfn landsins standi ekki vörð um störf upplýsingafræðinga og virði ekki fagmenntun þeirra. Ef þau gera það ekki, hví ættu aðrir vinnuveitendur og sveitarfélög að gera það? Það er varhugaverð þróun að vanmeta sérfræðimenntun og opna sérfræðistörf fyrir fólki án viðeigandi menntunar. Slíkt kemur óhjákvæmilega niður á faglegum vinnubrögðum, nýsköpun og framþróun. Upplýsingafræðingar þurfa að standa vörð um sín sérfræðistörf og halda áfram að efla sitt fagnám, svo tryggja megi metnaðarfulla starfsemi bóka- og skjalasafna til framtíðar.

Höfundar eru upplýsingafræðingar á háskólabókasafni.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×