Erlent

Réðst á lögmann sinn

Máni Snær Þorláksson skrifar
Konan réðst á lögmanninn sinn í dómssal.
Konan réðst á lögmanninn sinn í dómssal. Twitter

Tuttugu og fimm ára kona réðst á lögmann sinn við fyrirtöku í þinghaldi í Wisconsin-ríki í Bandaríkjunum í gær. Konan er ákærð fyrir að hafa myrt mann, misnotað hann kynferðislega og sundurlimað lík hans.

Taylor Schabusiness réðst á Quinn Jolly, lögmann sinn skömmu eftir að hann bað dómarann í málinu um að fresta réttarhöldunum um tvær vikur. Það vildi Jolly gera svo hægt væri að fá sérfræðing til að skera úr um hvort Schabusiness væri sakhæf.

Dómarinn samþykkti beiðni lögmannsins en við það réðst Schabusiness á Jolly. Lögreglufulltrúi skarst þá í leikinn og tók konuna niður. Samkvæmt AP var dómssalurinn tæmdur í kjölfarið en svo var haldið áfram með fyrirtökuna.

Schabusiness er sökuð um að hafa myrt hinn tuttugu og fimm ára gamla Shad Thyrion í febrúar árið 2022. Þá á hún að hafa misnotað hann kynferðislega og sundurlimað lík hans. Líkamspartar Thyrion fundust bæði á heimilinu þar sem hann var myrtur og í ökutæki. Hún heldur þó fram sakleysi sínu

Við lok fyrirtökunnar bað Jolly um að fá að draga sig frá málinu sem lögmaður Schabusiness. Ekki er vitað hvort dómarinn verði við þeirri bón þar sem hann tók ekki ákvörðun um það á þeirri stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×