Í yfirlýsingu sem Gaetz birti á þingvef sínum sagði að lögmenn hans hefðu fengið staðfest frá Dómsmálaráðuneytinu að hann yrði ekki ákærður. Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar hefur talsmaður ráðuneytisins ekki viljað staðfesta það.
Gaetz og þáverandi pólitískur bandamaður hans, Joel Greenberg, voru grunaðir um að greiða ungum konum og vændiskonum peninga eða gefa þeim gjafir í skiptum fyrir kynlíf. Greenberg sagði í skjali þar sem hann gekkst við sekt að hann hefði greitt konum og í einu tilfelli stúlku undir lögaldri fyrir að hafa mök við hann sjálfan og aðra menn.
Greenberg var dæmdur til ellefu ára fangelsisvistar, fyrir ýmsa glæpi.
Sjá einnig: Vinur Gaetz ætlar að játa og starfa með saksóknurum
Rannsóknin gegn Gaetz sneri meðal annars að ferð hans og Jason Priozzolo til Bahamaeyja. Þeir tóku hóp kvenna með sér og var til rannsóknar hvort þeir hefðu greitt konunum fyrir kynlíf. Einnig sneri rannsóknin að því hvort Gaetz hefði reynt að útvega konum sem hann sængaði hjá opinber störf.
Gaetz var einn þeirra þingmanna Repúblikanaflokksins sem stóðu í vegi Kevin McCarthy, leiðtoga þingflokksins, þegar hann sóttist eftir því að verða forseti fulltrúadeildarinnar. McCarthy tókst ætlunarverk sitt eftir fimmtán atkvæðagreiðslur og eftir miklar viðræður við Gaetz og aðra þingmenn, sem hann færði aukin völd í skiptum fyrir atkvæði þeirra.
Siðanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings tók til rannsóknar árið 2021 ásaknir um að Gaetz hefði sýnd myndir af nöktum konum í þingsal.