Innlent

Greiningum fjölgar enn á in­flúensu, skarlats­sótt og háls­bólgu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pestirnar voru mun fyrr á ferð og mun skæðari í vetur en árin á undan.
Pestirnar voru mun fyrr á ferð og mun skæðari í vetur en árin á undan.

Aukning varð á fjölda inflúensugreininga í síðustu viku samanborið við fjórar vikur þar á undan. Alls greindust 46 með staðfesta inflúensu, þar af 35 með inflúensustofn B, níu með inflúensustofn A(H1) og tveir með stofn A(H3).

Áberandi aukning er á greiningum á inflúensustofni B miðað við vikurnar á undan.

Frá þessu er greint á vef Landlæknisembættisins en þar segir að áfram greinist hlutfallslega flestir í aldurshópunum 0 til 4 ára og 65 ára og eldri.

115 greindust með Covid-19 í síðustu viku, svipaður fjöldi og vikuna áður. Fjöldi sýna var einnig svipaður sem og hlutfall jákvæðra af heildarfjölda sýna.

Fjöldi með staðfesta inflúensu eftir vikum í vetur samanborið við meðaltal síðustu fimm flensutímabila. Veturinn 2020-2021 er ekki inni í meðaltali en þá greindist ekkert tilfelli af inflúensu.Landlæknisembættið

Samkvæmt yfirlitinu yfir vikuna 6. til 12. febrúar eru enn óvenjumargir að greinst með skarlatssótt og þeim fer fjölgandi. 77 greindust með skarlatssótt í síðustu viku en hlutfallslega eru töluvert færri að greinast á Norðurlandi og Vestfjörðum samanborið við önnur heilbrigðisumdæmi.

Greiningum á hálsbólgum fjölgar einnig og voru þær yfir þrefalt fleiri í síðustu viku en að meðaltali sömu viku á árunum 2017 til 2021.

Tuttugu greindust með RS veiru, sem er sambærilegt við vikuna á undan. Meðal þeirra sem greindust voru þrjú börn undir eins árs.

„Rhinoveirugreiningar voru 35 talsins, sem er aukning frá viku 5. Þá greindust 19 með kórónuveirur aðrar en SARS-CoV-2, fleiri en í nokkurri viku veturinn 2022-2023. Fjöldi metapneumóveiru (hMPV) greininga var 12,“ segir á vef Landlæknisembættisins.

Átta lögðust inn á Landspítala með Covid-19, meira en helmingi færri en í vikunni á undan. Sjö lögðust inn vegna inflúensu og sjö vegna RS veiru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×