Erlent

Jimmy Carter liggur banaleguna

Samúel Karl Ólason skrifar
Jimmy Carter í heimabæ sínum Plains árið 2015.
Jimmy Carter í heimabæ sínum Plains árið 2015. AP/Branden Camp

Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er í líknandi meðferð. Hann hefur nýverið varið tíma á sjúkrahúsi en ákvað í dag að verja þeim tíma sem hann á eftir á heimili sínu með fjölskyldu sinni.

Í yfirlýsingu frá Carter Center, samtökum forsetans fyrrverandi, segir að forsetinn njóti stuðnings fjölskyldu sinnar og lækna.

Carter, sem heitir fullu nafni James Earl Carter yngri, er nærri því hundrað ára gamall en hann fæddist árið 1924 í Georgíu í Bandaríkjunum. Hann varð 39. forseti Bandaríkjanna árið 1977 en sat bara eitt kjörtímabil í Hvíta húsinu.

Hann fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2002 fyrir og vinnu í að finna friðsamar lausnir á deilum á alþjóðasviðinu, störf í þágu lýðræðis og mannréttinda og fyrir góðgerðastörf sín.

Áður en hann varð forseti þjónaði Carter í flota Bandaríkjanna í sjö ár og varð svo ríkisstjóri Georgíu árið 1970. Þegar hann settist að í Hvíta húsinu var verðbólga mikil í Bandaríkjunum og mikið atvinnuleysi. Honum tókst ekki að kveða niður verðbólgudrauginn og er það, auk gíslatökunnar í sendiráði Bandaríkjanna í Íran, taldar stærstu ástæður þess að hann náði ekki endurkjöri, samkvæmt síðu hans á vef Hvíta hússins.

Ronald Reagan bar þess í stað sigur úr býtum.

Gíslunum 52 var sleppt sama dag og Carter yfirgaf Hvíta húsið, eftir viðræður sem hann spilaði stóra rullu í.

Undanförnum árum hefur Carter varið í góðgerðastarf í Bandaríkjunum og í að byggja hús fyrir illa statt fólk. Hann hefur einnig átt við veikindi og heilsukvilla að stríða og greindist meðal annars með krabbamein í lifur árið 2015. Læknum tókst þó að fjarlægja það.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt Voice of America frá því í fyrra þegar Carter varð 98 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×