Fótbolti

Lík Christian Atsu komið til Gana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Atsu þegar hann var leikmaður með Newcastle United.
Christian Atsu þegar hann var leikmaður með Newcastle United. Getty/Serena Taylor

Lík ganverska fótboltamannsins Christian Atsu var flutt til Gana en hann fórst í jarðskjálftanum ógurlega í Tyrklandi fyrir tveimur vikum.

Flugvél með líkkistu Atsu lenti í Accra í Gana seint á sunnudagskvöldið en hermenn báru kistuna úr vélinni.

Atsu fannst í rústum heimili síns á laugardaginn en hann spilaði með tyrkneska félaginu Hatayspor og bjó því í suður Tyrklandi þar sem jarðskjálftinn varð.

Fyrst komu fréttir af því að Atsu hefði fundist lifandi í rústunum en því miður voru þær fréttir ekki réttar. Hann fannst ekki fyrr en ellefu dögum eftir jarðskjálftann.

Atsu var minnst í ensku úrvalsdeildinni og þá sérstaklega fyrir leik Newcastle og Liverpool en hann lék lengi með liði Newcastle. Hann lék líka með Everton. Kona hans, Marie-Claire Rupio, og þrjú börn þeirra voru á leiknum í Newcastle.

Atsu spilaði 65 landsleiki fyrir Gana og tók þátt í því þegar landslið Gana varð Afríkumeistari árið 2015.

Yfir 44 þúsund manns eru staðfestir hafa farist í jarðskjálftanum en því miður hefur sú tala hefur hækkað jafnt og þétt með hverjum klukkutímanum sem líður.

Mörg fótboltafélög á svæðinu hafa dregið lið sín úr keppni í tyrknesku deildarkeppnunum en aðstæður skelfilega á þessu svæði og hörmungarnar miklar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×