Flugvélin var á leið frá Bicol flugvellinum til Manila, höfuðborgar Filippseyja, þegar hún hvarf á laugardaginn. Um borð voru tveir ástralskir menn sem starfa fyrir filippseyskt jarðhitafyrirtæki, filippseyskur flugmaður og filippseyskur flugliði.
CNN greinir frá því að á sunnudaginn hafi björgunaraðilum tekist að staðsetja flak flugvélar ofan á eldfjallinu en hvort það sé flugvél mannanna á eftir að fá staðfest. Um er að ræða Cessna 340 vél en nú eru viðbragðsaðilar á leið í átt að flakinu. Eldfjallið er óvirkt en gaus síðast árið 2018.
Vonin um að finna mennina á lífi er veik þar sem aðstæður uppi á fjallinu eru mjög erfiðar. Þegar komið verður að flakinu verður hægt að finna út úr því hvers vegna vélin hrapaði.