Klinkið

Dýrmætum tíma sóað í dellukenningar

Ritstjórn Innherja skrifar
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins. Vísir/Vilhelm

Opinn fundur efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gærmorgun var einkar forvitnilegur. Áhorfendur fengu ýtarleg svör frá seðlabankastjóra um ákvarðanir peningastefnunefndar en upplýsingagildi fundarins fólst ekki síður í því hvernig sumar spurningar afhjúpuðu dellukenningarnar sem hafa hreiðrað um sig á Alþingi.

Að eigin sögn hafði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, ítrekað krafist þess að seðlabankastjóri yrði dreginn fyrir nefndina til að svara spurningum um áhrif verðbólgunnar á hagkerfið og heimilin í landinu. Henni varð loksins að ósk sinni.

Mér er alveg kunnugt um mun á nafnvaxtalánum og verðtryggðum lánum

En hvers vegna var þingmanninum svo mikið í mun að koma í kring fundi með seðlabankastjóra? Jú, til þess að bera undir hann kenningu sem stangast á við hagfræðina, hagsöguna og almenna skynsemi. Nánar tiltekið spurði hún hvort að stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands væru ekki verðbólguhvetjandi í ljósi þess að fyrirtæki myndu velta auknum fjármagnskostnaði út í verðlagið.

Ásgeir benti á hið augljósa, þ.e.a.s. að stýrivextir væru helsta tæki seðlabanka og að þeim hefði verið beitt í tvö eða þrjú hundruð ár.

„Það er skýrt að hærri fjármagnskostnaður dregur úr fjárfestingu, dregur úr lántökum – það er það sem við erum að huga að – og kælir hagkerfið. Það þekkjast engin dæmi um að stýrivextir hækki verðbólgu með þeim hætti sem hér er nefnt,“ sagði Ásgeir. Hann benti jafnframt á að áhrif stýrivaxtahækkana hefðu nú þegar komið fram.

Svo undarlegt var þetta upplegg að Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður, sá ástæðu til að taka sérstaklega fram, og réttilega svo, að jaðarskoðanir Ásthildar Lóu eigi ekkert erindi á fund Alþingisnefndar með seðlabankastjóra.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar. 

„Bara svona það sé alveg á hreinu […] þá er ég alveg innilega ósammála því að vaxtahækkanirnar sjálfar séu stóri efnahagsvandinn á Íslandi eða að vaxtahækkanir séu verðbólguhvetjandi,“ sagði Jóhann Páll.

„Ég held að það sé ekki gagnlegt að ræða þessi mál á svoleiðis forsendum. […] Vandinn er auðvitað verðbólgan, hvernig við náum henni niður.“

Síðar á fundinum eyddi Ásthildur Lóa tveimur heilum mínútum í að þylja upp tölur um þróun á greiðslubyrði og höfuðstól óverðtryggðra og verðtryggðra lána til þess eins að spyrja seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra hvort þeim væri kunnugt um þessar tölur.

„Mér er alveg kunnugt um mun á nafnvaxtalánum og verðtryggðum lánum,“ svaraði seðlabankastjórinn.

Afneitun á gagnsemi stýrivaxta er ekki bundin við Ásthildi Lóu. Samflokksmaður hennar, Guðmundur Ingi Kristinsson, steig upp í þingpontuna í gær og kallaði seðlabankastjóra „ofsatrúarmann“ sem stæði fyrir „fjárhagslegri hryðjuverkastarfsemi.“

Það er aðeins tvennt sem kemur til greina. Annað hvort hefur flokkurinn ekkert fyrir sér í því að hafna sígildum og þaulrannsökuðum efnahagslögmálum og þá væri hann fullkomlega óstjórntækur. Hinn möguleikinn er sá að þingmenn Flokk fólksins hafi fundið nýjan sannleik sem mun umbylta starfsemi seðlabanka um allan heim. 

Þá eiga þeir ágætis möguleika á að hljóta hin virtu hagfræðiverðlaun seðlabanka Svíþjóðar.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×