Tónlist

Nanna Bryndís sóló á Airwaves

Máni Snær Þorláksson skrifar
Nanna Bryndís mun spila á Iceland Airwaves.
Nanna Bryndís mun spila á Iceland Airwaves. Getty/Matt Jelonek

Tuttugu og tveir listamenn sem koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni hafa nú verið tilkynntir. Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni er Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, söngkona Of Monsters and Men. Þetta verður í fyrsta skipti sem hún kemur fram undir nafni sólóverkefnis síns, Nanna, hér á landi.

Nanna gaf út sitt fyrsta sólólag í byrjun ársins, Godzilla. Lagið tók hún upp á heimili sínu í sveitinni ásamt Ragnari Þórhallssyni, sem er einn meðlima Of Monsters and Men, og Bjarna Þór Jenssyni, sem leikið hefur með hljómsveitinni á tónleikum.

Auk Nönnu munu eftirfarandi koma fram á hátíðinni: Balming Tiger, Blondshell, Cassia, ClubDub, Daniil, FETISH, Fran Vasilic, Gallus, Kristin Sesselja, Kneecap, Lime Garden, Lón, Love'n'joy, Myrkvi, Neonme, Squid, The Goa Express, The Haunted Youth, Trentemøller, Whispering Sons, Yard Act.

„Iceland Airwaves mun viðhalda hlutverki sínu sem lykilviðburður í kynningu á íslenskri tónlist með því að bjóða upp á sannkallaða íslenska tónlistarveislu í ár,“ segir í tilkynningu frá hátíðinni.

Mikið af íslensku tónlistarfólki stígur á svið á hátíðinni. Meðal annars Valdimar Guðmundsson, einn ástsælasti tónlistarmaður landsins. Hann er hluti af kántrískotna tríóinu Lón.

Þá er einnig mikið af erlendum listamönnum sem munu koma fram. Þeir koma víða að, til dæmis frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Suður-Kóreu, Úkraínu, Belgíu, og Norður-Írlandi.

„Iceland Airwaves, sem nýlega var krýnd besta innanhússtónlistarhátíðin á European Festival Awards 2022, heldur áfram að sanna orðspor sitt sem ein mest spennandi tónleikahátíð heims. Sérstaklega þegar kemur að upprennandi tónlistarfólki sem á framtíðina fyrir sér. Hátíðin mun, sem alltaf, fara fram í hjarta höfuðborgarinnar en búið er að staðfesta lykiltónleikastaði sem einkennt hafa hátíðina í gegnum árin, t.a.m. Listasafn Reykjavíkur, Gamla bíó, Iðnó, Fríkikjuna, Gaukinn og Húrra, en fleiri staðir verða tilkynntir er nær dregur hátíð.“

Hægt er að kynnast listamönnunum betur á lagalista hátíðarinnar á Spotify:

Miðasala á hátíðina er hafin en miðana má nálgast á heimasíðu Iceland Airwaves.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×