Erlent

Sex­tán ár bætast við dóm Wein­stein

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Weinstein afplánar nú þegar 23 ára dóm.
Weinstein afplánar nú þegar 23 ára dóm. Etienne Laurent/Getty

Nauðgarinn og fyrrverandi kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur verið dæmdur í 16 ára fangelsi, til viðbótar við þann 23 ára fangelsisdóm sem hann afplánar nú. 

Í desember á síðasta ári var Weinstein fundinn sekur um nauðgun og kynferðislega áreitni í garð leikkonu og fyrirsætu sem ekki hefur verið nafngreind. Konan sagði fyrir dómi að Weinstein hefði ráðist að sér á hótelherbergi á kvikmyndahátíð í Los Angeles í febrúar 2013. 

Í sama máli var Weinstein sýknaður af ákæru fyrir gróft kynferðislegt ofbeldi gegn annarri konu. Þá komst kviðdómur í málinu ekki að niðurstöðu um þrjár aðrar ákærur fyrir kynferðisofbeldi, þar á meðal eina fyrir meint brot gegn Jennifer Siebel Newsom, eiginkonu Gavin Newsom, ríkisstjóra Kaliforníu.

Í frétt breska ríkisútvarpsins af málinu er sagt að Weinstein sé talinn líklegur til að áfrýja dómnum. Weinstein, sem er sjötugur, afplánar nú þegar 23 ára fangelsisdóm eftir að hafa verið dæmdur fyrir nauðgun og kynferðisbrot í New York fyrir um tveimur árum.


Tengdar fréttir

Weinstein dæmdur fyrir aðra nauðgun

Kviðdómur í Los Angeles í Bandaríkjunum hefur fundið kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein sekan af ákæru um að hafa nauðgað konu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×