Fótbolti

Kjartan Henry skoraði fyrir FH og ÍBV konur hefja Lengju­bikarinn á sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Úlfur Ágúst skoraði fyrir FH í dag.
Úlfur Ágúst skoraði fyrir FH í dag. Vísir/Hulda Margrét

FH vann stórsigur á Leikni í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag. Þá hófu ÍBV konur Lengjubikarinn á 2-0 sigri á Keflavík.

FH og Leiknir mættust í Skessunni í dag í riðli tvö í A-deild karla. Hafnfirðingar hófu leikinn vel og voru komnir í 2-0 strax eftir rúmar tíu mínútur.

Fyrst skoraði Ólafur Guðmundsson og Úlfur Ágúst Björnsson bætti öðru markinu við úr vítaspyrnu.

Í síðari hálfleik bættu FH-ingar við tveimur mörkum á tveggja mínútna kafla. Kjartan Henry Finnbogason og Davíð Snær Jóhannsson skoruðu mörkin og FH vann öruggan 4-0 sigur.

Í riðli þrjú vann Stjarnan 3-1 sigur á Njarðvík. Guðmundur Baldvin Nökkvason kom Stjörnunin yfir í seinni hálfleik og Bergþór Ingi Smárason jafnaði metin þegar sjö mínútur voru eftir.

Stjarnan skoraði hins vegar tvö mörk í uppbótartíma og var Hilmar Árni Halldórsson þar á ferð í bæði skiptin. Hilmar Árni er að snúa til baka eftir að hafa misst af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla og er það gríðarlegur styrkur fyrir Stjörnuliðið.

Í Lengjubikar kvenna mættust Keflavík og ÍBV suður með sjó. Leikurinn var áhugaverður fyrir þær sakir að Jonathan Glenn er nú þjálfari Keflavíkur en talsverð umræða varð um brottrekstur hann frá ÍBV í haust.

Það voru hins vegar Eyjakonur sem sóttu stigin þrjú til Keflavíkur í dag. Kristín Erna Sigurlásdóttir og Selma Björt Sigursveinsdóttir skoruðu mörkin og ÍBV því komið með þrjú stig í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×