Þær Berglind Stefánsdóttir og Guðrún Rakel Eiríksdóttir, sálfræðingar og verkefnastjórar hjá VIRK hafa rannsakað þessi mál frá árinu 2020. Guðrún Rakel var spurð hvað það væri sem skýrði þetta ósamræmi sem birtist í niðurstöðum verkefnisins.
„Það er bara mjög góð spurning og kannski er erfitt að svara þér núna. Við erum einmitt kannski þess vegna að rannsaka þetta hjá VIRK. Við erum búin að vinna að þessu rannsóknarverkefni frá 2020 og þar sem þessi tiltekni hópur er undir. Við erum að tala um þau sem sækja um starfsendurhæfingu hjá VIRK og hvort óvinnufærnina megi að einhverju leyti rekja til kulnunar í starfi. Við erum að kafa ofan í þessi mál. En það virðast margir sem koma til okkar spegla sig í einkennum kulnunar og telja þau eiga við sig en síðan þegar kafað er dýpra ofan í málin þá er kannski eitthvað annað sem skýrir líðan fólksins betur og þann vanda sem verið er að glíma við.“
Guðrún segir að hluti af ástæðunni fyrir því að svo margir telji sig vera í kulnun sé að sum einkenni hennar eiga líka við um ýmsa geðræna kvilla til dæmis þunglyndi. Nýlega breytti Alþjóðaheilbrigðismálastofnun skilgreiningu sinni á kulnun. Nú er talað um hana sem vinnutengt fyrirbæri og að hana megi rekja til langvarandi álags á vinnustað.
„Það sem einkennir þetta helst er örmögnun, mikil þreyta og aftenging. Þarna verður breytt viðhorf til vinnu og minni afköst. Einnig má bæta við hugrænum einkennum eins og minnisleysi og vanda við einbeitingu en þessi einkenni geta líka komið fram í ýmsum geðröskunum. Það er smá samsláttur þarna,“ segir Guðrún Rakel Eiríksdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri hjá VIRK.