Allt annað líf
Rihanna eignaðist sitt fyrsta barn með rapparanum A$AP Rocky í fyrra en þau eiga enn eftir að tilkynna nafn barnsins. Nú er hún aftur ólétt en hún afhjúpaði það bæði eftirminnilega og sögulega í hálfleiksatriði sínu á Ofurskálinni fyrir nokkrum vikum.

„Þú manst ekki eftir lífinu fyrir fæðingu, þú í alvöru reynir að muna eftir því en tilfinningarnar, það sem þú þráir, hlutirnir sem þér finnst skemmtilegir, þú tengir ekki við það lengur. Þú leyfir þér ekki að fara þangað, því það skiptir ekki máli,“ segir Rihanna við Vogue.
Hún segir fæðinguna hafa verið fallega þrátt fyrir að hún hafi á sama tíma verið erfið. Fyrstu dagarnir hafi verið klikkaðir og lítið hafi verið um svefn.
„Drullið ykkur í burtu“
Rihanna, A$AP og litli drengurinn þeirra fóru í myndatöku fyrir Vogue en á meðan henni stóð áttuðu þau sig á því að lausaljósmyndari (e. paparazzi) lá í leyni að taka myndir af barninu.
„Við sem foreldrar eigum að fá að ákveða hvenær og hvernig við gerum það,“ segir Rihanna, sem hafði þá aldrei birt myndir af barninu sínu.
„Gerið það sem þið viljið við mig en hann hefur ekkert að segja um þetta. Við höfðum náð að vernda hann hingað til og fólk hefur ekki leyfi til að birta eða selja myndir af barninu mínu. Drullið ykkur í burtu.“
Hún segist strax hafa áttað sig á því að myndirnar myndu fljótt birtast og hún yrði að vera fyrri til. Því ákvað hún strax að senda nokkrar krúttlegar myndir á vingjarnlegan bloggara og gerði sér lítið fyrir og stofnaði TikTok síðu þar sem hún birti myndband af syni sínum. Ekki leið langur tími þar til myndbandið var komið með yfir 20 milljón áhorf.
Erfitt að toppa sig
Aðdáendur Rihönnu hafa beðið óþreyjufullir eftir nýrri tónlist frá henni. Síðasta plata sem hún gaf út var platan Anti árið 2016 en hún sendi þó frá sér lagið Lift Me Up í október í fyrra í tengslum við kvikmyndina Black Panther: Wakanda Forever. Lagið er tilnefnt til Óskarsverðlauna í ár og segist Rihanna stöðugt vinna að tónlist þrátt fyrir að gefa hana ekki út.
Hún segir plötuna Anti hafa verið hennar stórkostlegasta verk hingað til og því sé erfitt að toppa sig.
„Ég set þessa pressu á sjálfa mig. Að ef efnið er ekki betra en það sem ég hef gert hingað til þá sé það ekki þess virði.“
Þó vilji hún breyta því hugarfari.
„Það er ekki rétta leiðin til að hugsa um tónlist því tónlist er rými til sköpunar og þú getur skapað hvað sem er. Það þarf bara að vera eitthvað sem veitir vellíðan.“

Ný tónlist væntanleg
Rihanna hefur því ákveðið að ögra fullkomnunaráráttunni og kýla meira á það.
„Mig langar að gefa út plötu á þessu ári. Mig langar að hafa gaman og skapa tónlist og tónlistarmyndbönd.“
Þess ber að geta að blaðamaður Vogue tekur fram að þegar viðtalið átti sér stað hafi Rihanna ekki vitað að hún væri ólétt af öðru barni. Óþreyjufullir aðdáendur geta þó huggað sig við þá staðreynd að Rihanna stefnir sannarlega á að gefa út meiri tónlist á komandi tímum.