Innlent

Settur ríkis­sátta­semjari sækir um nýtt starf

Atli Ísleifsson skrifar
Ástráður Haraldsson héraðsdómari hefur gegnt stöðu setts ríkissáttasemjara í deilu Eflingar og SA.
Ástráður Haraldsson héraðsdómari hefur gegnt stöðu setts ríkissáttasemjara í deilu Eflingar og SA. Vísir/Vilhelm

Ástráður Haraldsson, héraðsdómari og settur ríkissáttasemjari, og Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari og formaður Dómarafélags Íslands, eru í hópi fjögurra sem hafa sótt um stöðu sem dómari við Landsrétt sem auglýst var laus til umsóknar á dögunum. Fjórir héraðsdómarar sóttu um stöðuna.

Í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins segir að þann 10. febrúar hafi ráðuneytið auglýst laust til setningar embætti dómara við Landsrétt. 

„Um er að ræða setningu til og með 28. febrúar 2029 vegna leyfis skipaðs landsréttardómara. Umsóknarfrestur rann út þann 27. febrúar síðastliðinn og eru umsækjendur eftirtaldir:

  • Arnaldur Hjartarson héraðsdómari
  • Ásgerður Ragnarsdóttir héraðsdómari
  • Ástráður Haraldsson héraðsdómari
  • Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari

Sett verður í embætti hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara lýkur störfum,“ segir í tilkynningunni.

Ástráður hefur eftir því sem fréttastofa kemst næst sótt sex sinnum áður um embætti við dómstólinn en ekki fengið. Tvívegis hefur hann verið metinn í hópi hæfustu umsækjendanna og var meðal þeirra fimmtán sem hæfisnefnd mat hæfasta þegar Landsrétti var komið á koppinn.

Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, gerði fjórar breytingar á dómaralistanum. Meðal breytinga var að skipta Ástráði út. Úr varð heljarinnar dómsmál sem lauk með því að ríkið var dæmt til að greiða dómurum, sem skipt var út, skaðabætur. Sigríður sagði í framhaldinu af sér sem ráðherra vegna málsins.


Tengdar fréttir

Ása Ólafsdóttir talin hæfust í Landsrétt

Dómnefnd um hæfni umsækjanda um embætti dómara hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ása Ólafsdóttir, forseti Lagadeildar Háskóla Íslands, sé hæfust umsækjenda um dómarastöðu við Landsrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×