Viðskipti innlent

Fimm­tíu sagt upp í tveimur hóp­upp­sögnum í febrúar

Atli Ísleifsson skrifar
Uppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu apríl til júní 2023.
Uppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu apríl til júní 2023. Vísir/Vilhelm

Tvær tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í febrúar þar sem fimmtíu starfsmönnum var sagt upp störfum.

Á vef Vinnumálastofnunar segir að þar af hafi 33 verið í þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni og sautján við vísindarannsóknir og þróunarstarf. Fram kemur að uppsagnirnar komi til framkvæmda á tímabilinu apríl til júní 2023.

Greint var frá því á Vísi í lok febrúarmánaðar að sautján hafi verið sagt upp hjá Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna í Kópavogi. Var ástæðan sögð vera að færri verkefni Íslenskrar erfðagreiningar kalli á aðkomu Þjónustumiðstöðvarinnar en áður.

Þá var sagt frá því að í byrjun febrúar að öllum starfsmönnum Cyren á Íslandi hafi verið sagt upp, eða um þrjátíu talsins.

Með hópuppsögn er átt við uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum þar sem fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 21-99 í vinnu, minnst 10% starfsmanna í fyrirtækjum með 100-299 í vinnu eða minnst 30 starfsmenn þar sem venjulega eru 300 eða fleiri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×