Fram kemur í nýjum talnabrunni landlæknisembættisins um áfengisneyslu að áhættudrykkja sé farin að aukast aftur eftir lægð í kring um heimsfaraldur Covid. Í fyrra féll tæpur fjórðungur Íslendinga undir þá skilgreiningu að vera með skaðlegt neyslumynstur áfengis, eða stunda svokallaða áhættudrykkju.
Hlutfall þeirra sem stunduðu áhættudrykkju var hæst árið 2018 en féll nokkuð árin 2020 og 2021. Nú er neyslan hins vegar farin að aukast að nýju og gert ráð fyrir að 33 þúsund karlar og 25 þúsund konur á landinu hafi haft skaðlegt neyslumynstur áfengis í fyrra.
„Það dregur aðeins úr á Covid tímanum, þá eru bæði samkomutakmarkanir og minna aðgengi,“ segir Rafn Magnús Jónsson, verkefnastjóri áfengis- og vímuvarna hjá embætti landlæknis.
„Heilt yfir höfum við verið að auka áfengisdrykkju í öllum aldurshópum undanfarin ár.“
Þá drekki fleiri reglulegar: Einn bjór eða vínglas á virkum kvöldum frekar en að drekka óhóflega um helgar. Það geti haft mjög slæm áhrif til langs tíma.
„Við erum að sjá það að líkaminn er útsettur fyrir etanólinu fleiri daga vikunnar en oft áður. Það er kannski til þess valdandi að við erum að sjá aukningu í langvinnum sjúkdómum eins og áfengistengdum skorpulifurstilfellum og þá mögulega krabbameini,“ segir Rafn.
Þá hafi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, mælst til þess að heildarneysla áfengis verði dregin saman um minnst tíu prósent fyrir árið 2025. En hvernig verður því markmiði náð?
„Það eru ýmsar leiðir sem við getum gert betur í dag. í stað þess að auka aðgengi eigum við að halda í það fyrirkomulag sem við höfum.“