Innlent

Asbest fannst í Höfða

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Engir viðburðir fara fram í Höfða um þessar mundir.
Engir viðburðir fara fram í Höfða um þessar mundir. Vísir/Vilhelm

Asbest hefur fundist í hinu sögufræga húsi Höfða í Borgartúni. Unnið er að því að fjarlægja það en engir viðburðir fara nú fram í húsinu vegna þessa. Asbest er heilsuspillandi efni og notkun þess hefur verið bönnuð á Íslandi frá árinu 1983.

Fréttablaðið greinir frá því að asbest hafi fundist í Höfða og hefur eftir samskiptstjóra Reykjavíkurborgar að það hafi komið í ljós við endurnýjun á eldhúsi hússins. Asbestplötur voru undir dúk og í veggjum en unnið er að því að fjarlægja það með aðstoð sérfræðinga, af því er Fréttablaðið hefur eftir Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptstjóra á skrifstofu borgarstjóra. 

Afhending Fjöruverðlaunanna átti að fara fram í Höfða í gær en var vegna þessa flutt annað. 

Heilsuspillandi efni

Samkvæmt Vísindavefnum er asbest samheiti yfir nokkrar steintegundir sem allar eiga það sameiginlegt að mynda þráðkennda kristalla.

„Þessir kristallar eru oft mjög fíngerðir, ekki ósvipaðir englahárinu sem sumir nota til að skreyta jólatrén sín,“ segir þar. 

Andi maður að sér miklu magni af asbetryki getur það valdið heilsutjóni. Sá skaði kemur oft ekki fram fyrr en áratugum síðar en steinlunga, lungnakrabbamein og fleiðrukrabbamein er meðal þess sem nefnt er á Vísindavefnum sem mögulegar afleiðingar. 

Algengt var að asbest væri notað sem brunavarnaefni eða til hitaeinangrunar á árum áður en notkun þess hefur verið bönnuð á Íslandi frá árinu 1983. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×