Erlent

Biden vill hækka skatta á ríka og fyrirtæki

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lagði í dag fram fjárlagatillögu sína fyrir árið 2024 þar sem hann kallar eftir mikilli útgjaldaaukningu, auk þess að kalla eftir hærri sköttum á eignafólk og fyrirtæki. Tillagan verður aldrei samþykkt þar sem Repúblikanar fara með nauman meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

Í tillögu Bidens er lagt til að dregið verði úr skuldum ríkisins um 2,9 billjón dali á næstu tíu árum.

Tillagan opnar í raun á viðræður Bidens og Demókrata við Repúblikana um fjárlög næsta árs og markar fyrstu afstöðu Demókrata fyrir þær viðræður. AP fréttaveitan segir að tillagan gæti sömuleiðis verið til marks um kosningaloforð Bidens fyrir forsetakosningarnar á næsta ári, ákveði hann að bjóða sig aftur fram.

Repúblikanar hafa sagt að þeir vilji draga úr skuldum ríkisins með því að skera niður hjá hinu opinbera, án þess þó að segja hvernig. Þeir segjast ekki vilja hækka skatta og óttast þar að auki að skera niður í velferðarmálum af ótta við reiði kjósenda.

„Repúblikanar á þingi tala sífellt um að þeir vilji draga úr skuldum ríkisins en þeir hafa ekki lagt fram neina áætlun varðandi hvar þeir ætla að skera niður,“ sagði Shalanda Young, sem stýrði gerð fjárlagatillögu Hvíta hússins. „Okkur hlakkar til að sjá fjárlagafrumvarp þeirra, svo bandaríska þjóðin geti borið það saman við tillögu okkar.“

Kevin McCarthy, þingforseti, sagði í dag að tillögur Bidens gengju ekki nógu langt í niðurskurði og varðandi það að draga úr skuldum.

„Það virðist sem hann vilji mynda stærstu ríkisstjórn sögunnar. Ég held að það sé ekki það sem við þurfum núna,“ sagði McCarthy.

Í tillögum forsetans er talað um að safna 4,5 biljónum dala á næsta áratug með auknum sköttum á ríkt fólk og stór fyrirtæki. Í grófum dráttum yrði þessum peningum varið í millistétt Bandaríkjanna, aldraða og fjölskyldufólk en þar að auki felur tillagan í sér samdrátt í fjárútlátum til varnarmála á næsta áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×