Viðskipti innlent

Tæp­lega 98 þúsund bækur seldust

Atli Ísleifsson skrifar
Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri bókamarkaðar Félags íslenskra bókaútgefenda, var ánægð með söluna þegar rætt var við hana í gærkvöldi.
Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri bókamarkaðar Félags íslenskra bókaútgefenda, var ánægð með söluna þegar rætt var við hana í gærkvöldi. Stöð 2

97.827 bækur seldust á Bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda á Laugardalsvelli í ár sem jafngildir því að um 26 prósent allra íbúa landsins hafi náð sér í bók eða ríflega fjórðungur landsmanna.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Bókamarkaðarins þar sem aðstandendur þakka sérstaklega fyrir góðar móttökur.

Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri bókamarkaðar Félags íslenskra bókaútgefenda, var ánægð þegar hún ræddi við fréttamann í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þegar stutt var í lokun markaðarins.

„Það er búið að vera mjög mikið að gera. Alveg frábært. Þetta er okkar besti árangur hérna á Laugardalsvelli, þjóðarleikvangnum,“ segir Bryndís.

Hún segir að sérstaklega mikið hafi selst af hannyrðabókum, krossgátublöðum og barnabókum. „Þær bara nú eiginlega markaðinn uppi. 48 prósent af allri sölu eru barnabækur,“ segir Bryndís.

Þegar markaðurinn opnaði var greint frá því að um 6.300 titlar hafi verið í boði. Bryndís sagði við opnun að markmiðið væri að selja 100 þúsund bækur og er því ljóst að mjög litlu munaði að það hafi tekist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×