Skoðun

VR þarf nýjan for­mann

Helga Guðrún Jónasdóttir skrifar

Félagar í VR ganga nú enn á ný til formannskosninga. Elva Hrönn Hjartardóttir gefur kost á sér ásamt núverandi formanni. 

Kvenfyrirlitning nýjasta viðbótin

Hlutverk stéttarfélaga er að semja um kaup og kjör félagsmanna og innheimta þau félagsgjöld til að standa straum af þeirri starfsemi. Svo einfalt er það. Þetta hlutverk rækja þau að sjálfsögðu best við samningaborðið. Öskurkeppni í ræðustól, hatursorðræða gegn ríkisstjórn, Seðlabanka og fjármálakerfinu og almennur dónaskapur í samskiptum skilar yfirleitt engu, nema þá helst einhverri aðdáun hjá pópúlískum skoðanasystkinum. Kvenfyrirlitning virðist svo vera nýjasta viðbótin í kosningabaráttu formannsins. Karlar sem eru þekktir fyrir að hata konur keppast í það minnsta við að lofa formanninn og „alvöru karlmennsku“ hans. 

Alvarlega staða blasir við 

Ef litið er yfir svið vinnumarkaðarins blasir býsna alvarleg staða við. ASÍ er sundurslitið af innbyrðis átökum, formenn stéttarfélaga virða viðteknar vinnureglur og siðareglur vinnumarkaðarins að vettugi, vinnumarkaðslöggjöfin sem ríkissáttasemjari hefur stuðst við stenst ekki dómstóla og samstaða launafólks í kjarasamningagerð hefur verið rofin á þeirri furðulegu forsendu að standi vinnandi fólk saman um kjör sín og kaupmátt, taki það sjálfstæðan samningarétt af stéttarfélögum. Fyrir fólk eins og mig sem hefur fylgst með vinnumarkaðsmálum síðan fyrir aldamótin síðustu, hefur mörgu verið snúið nánast upp í andhverfu sína. 

Núverandi formaður hefur ekki náð væntum árangri 

Það grátlegasta við þetta er, að hefði formaður VR bara einbeitt sér að helsta baráttumáli sínu, húsnæðismálunum, gæti hann hafa náð verulegum árangri með þetta stærsta stéttarfélag landsins á bak við sig. Því miður hefur það ekki legið fyrir honum. Með því ala stöðugt á ótta og reiði hefur formaðurinn vissulega styrkt sig og valdastöðu sína. Gallinn er hins vegar bara sá að þetta er tímafrek iðja og ekki margt annað sem kemst í verk á sama tíma. Þú kallar í það minnsta ekki stjórnvöld öllum illum nöfnum og semur síðan við þau um víðtækar lausnir í húsnæðismálum. Samningar og samstarf kalla á traust. 

Ætti bara að drífa sig í stjórnmálin

Aðdáun stjórnarandstæðinga gæti á hinn bóginn vaxið verulega. Slíkur árangur telur bara ekki fyrir formann VR. Það er því brýnt að félagar í VR gefi núverandi formanni verðskuldað frí, svo að hann geti haldið ótrauður út á vígvöll stjórnmálanna. Þar myndi fara miklu betur um formanninn og baráttumálin hans. 

Nái Elva Hrönn kjöri bíður hennar það risavaxna verkefni að koma starfsemi VR aftur á réttan kjöl. Svo að brýnustu málin séu nefnd, þá þarf VR að beita sér fyrir því að efla ASÍ og styrkja sem þann mikilvæga samstarfsvettvang launafólks sem sambandinu er ætlað að vera. Formaður VR þarf þarf að leiða viðræður við stjórnvöld af hálfu vinnumarkaðarins um þjóðarsátt í húsnæðismálum og síðast en ekki síst þá þarf að efla og bæta þjónustu félagsins við VR félaga. Mikilvægur liður í því uppbyggingarstarfi gæti verið að deildaskipta félaginu, sem er afar stórt og með ólíka tekjuhópa innanborðs. 

Umhverfismál, jafnréttis- og mannréttindamál, fjórða tæknibyltingin og valdefling lægstu tekjuhópa – allt eru þetta jafnframt brýn verkefni sem bíða úrlausnar og treysti ég Elvu Hrönn best fyrir því að leiða þá mikilvægu vinnu. 

Gerum Elvu að næsta formanni VR 

Ágætu félagar í VR. Ég hvet alla til að nýta kosningarétt sinn næstkomandi miðvikudag. Það er mikilvægt að nota kosningaréttinn. Mig langar jafnframt til að hvetja fólk til að greiða Elvu Hrönn atkvæði sitt. Kjósum Elvu Hrönn og fáum nýjan og glæsilegan formann sem nær árangri fyrir öll í VR. 

Höfundur bauð sig fram til formanns VR fyrir tveimur árum.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×