„Ég er ekki viss um að fólk átti sig á því hve afbrigðilegir kuldarnir eru,“ segir Einar á Facebook um samfellt frost frá 6. mars. Það verði ekki fyrr en á fimmtudag sem hitinn gæti „potast upp í 0°C“ yfir miðjan daginn.
Einar segir um að ræða óvenju langan kuldakafla í mars. Fyrir jól hafi samfelldur frostakafli náð 14 dögum en þá var sól lægst á lofti. Nú sé sólin að verma yfir daginn.
„Meira segja kaldasta marsmánuð í minni eldri núlifandi landsmanna, þ.e. 1979, voru þeir 11 samfelldu frostadagarnir (28. feb - 10. mars). Kælandi hafís var þá lónandi undan öllu Norðurlandi saman með þrálátri N- og NA-áttinni.
Fyrstu 5 dagar mánaðarins voru hlýir, en síðan þá lætur nærri að meðalhitinn sé á milli -6,5 og -7,0°C í Reykjavík,“ segir Einar.
Hann segir að fara þurfi aftur til 1951 til að finna álíka kuldakast og nú án hafíss undan ströndum landsins.
Hér má finna umfjöllun Trausta Jónssonar veðurfræðings um veður árið 1951.