„Lagið fjallar um það hvernig minningar eiga það til að skjóta upp kollinum þegar maður finnur gamlar myndir eða upptökur. Þetta er fyrsta smáskífa af nýju tónlistinni minni,“ segir Halldór Eldjárn í samtali við blaðamann.
Hér má sjá myndbandið:
Tónlistarræturnar
„Hugmyndin að laginu sjálfu kom þegar ég var að róta í gömlum upptökum og fann kasettuupptöku úr fyrsta píanótímanum mínum en amma mín kenndi mér á píanó þegar ég var fimm ára.
Mér fannst eitthvað sniðugt að reyna að nota þessa upptöku svo ég setti hana inn í tölvuna og breytti henni með því að baka hana og teygja með alls konar hljóð effectum sem varð svo grunnurinn að laginu, en hana má heyra í intro og outro lagsins. Guðrún kom svo og samdi laglínu og texta með mér og söng svo yfir lagið,“ segir Halldór Eldjárn og bætir við:
„Við Guðrún vorum búin að prófa að semja tónlist saman og gerðum dálítið af tilraunum og demóum. Næst þegar við hittumst til að gera músík þá leyfði ég Guðrúnu að heyra það sem var komið af laginu og hún fékk strax fullt af hugmyndum svo við ýttum bara á REC og kláruðum lagið sama dag, með bakröddum og öllu tilheyrandi.“
Gamalt lúkk
Þau segjast hafa farið alla leið við að gera tónlistarmyndbandið.
„Við fengum Ísak Hinriksson vin okkar og leikstjóra til að gera myndbandið, en í því leika Kristján Franklín Magnús, Anna Róshildur Benediktsdóttir Bøving og Nikulás Hansen Daðason. Myndbandið er allt tekið á 8 og 16mm kvikmyndafilmu, til að fá þetta gamla lúkk sem passar svo vel við lagið og efni lagsins.“
Hér má heyra lagið á Spotify. Hér má finna tónlistarmyndbandið á Youtube.