Erlent

Felli­bylurinn Fred­dy orðinn sá lang­lífasti í sögunni

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Freddy virðist nú hafa slegið met sem staðið hefur síðan 1994 þegar fellibylurinn John entist í 31 dag.
Freddy virðist nú hafa slegið met sem staðið hefur síðan 1994 þegar fellibylurinn John entist í 31 dag. NASA Earth Observatory via AP

Fellibylurinn Freddy hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar í Afríkuríkjunum Malaví og Mósambík en tala látinna á svæðinu fór yfir 200 í gær.

Björgunarliðar segja allar líkur á því að tala látinna eigi eftir að hækka en heilu hverfin eru í rúst eftir óveðrið sem framkallaði flóð og aurskriður. Veðrið gekk á land á suðuausturhorni Afríku um síðustu helgi en stormurinn hefur verið á ferð síðan hann myndaðist þann sjötta febrúar síðastliðinn.

Hann gekk þá á land á Madagaskar en fór svo aftur út á Indlandshaf langleiðina að ströndum Ástralíu áður en hann sneri til baka til Afríku. Fellibylurinn er nú kominn í sögubækurnar sem það óveður sem staðið hefur lengst.

Veðurfræðingar segja afar sjaldgæft að fellibyljir nái yfir Indlandshaf, það gerðist síðast árið 2000. Það, að þeir snúi svo alla leið til baka, eins og Freddy gerði er síðan enn sjaldgæfara.

Það bætir svo gráu ofan á svart að í Malaví hefur geisað mesti kólerufaraldur í sögu landsins og er óttast að hann muni nú versna til muna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×