Skoðun

Brúar dóms­mála­ráð­herra bilið?

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Meðalaldur barna við innritun á leikskóla Reykjavíkurborgar er nú 21 mánuðir og þrátt fyrir fögur fyrirheit hefur meirihlutanum í borginni ekki tekist að lækka innritunaraldurinn svo neinu nemi; það er staðan. Samtímis berast fregnir af því að fjölmargir leikskólar borgarinnar muni ekki taka við fleiri börnum í haust vegna slælegs ástands skólahúsnæðis. Þannig hefur Reykjavíkurborg þurft að loka 25 af 67 skólum Reykjavíkur, að hluta til eða öllu leyti, eða gæti þurft að loka fyrr en varir vegna ástands fasteignanna. Það er óhætt að segja að neyð ríki í skólamálum í Reykjavík. Foreldrar ungra barna eru orðnir örvæntingarfullir og segja öllu fögru lofað, en ekki við neitt staðið.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur bent á margþættar lausnir við leikskólavandanum og lagt fram fjölbreyttar og nýstárlegar aðferðir til að leysa vandann. Þessi vandi varð einmitt kveikjan að fyrirspurn sem ég sendi dómsmálaráðherra sl. haust um hvort hann hygðist skoða útvíkkun dvalarleyfis vegna vistráðningar frá ríkjum utan EES-svæðisins þannig að heimilt yrði að endurnýja leyfið að ári liðnu. Fjölmargir foreldrar hafa nefnilega gripið til þess ráðs að gera samning um vistráðningu (au pair) til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar. Hér eru slíkum samningur settar þrengri skorður en sambærilegum samningum t.d. í Danmörku. Því var ánægjulegt að sjá frumvarp frá dómsmálaráðherra varðandi þetta atriði í samráðsgátt. Þar er lögð til heimild til endurnýjunar til eins árs til handa dvalarleyfishöfum sem hér dvelja vegna vistráðningar.

Mér hafa einnig borist ábendingar um langan afgreiðslutíma umsókna um dvalarleyfi vegna vistráðningar frá ríkjum utan EES-svæðisins. Ég hef því sent dómsmálaráðherra fyrirspurn um þetta og hvort ráðherrann hyggist skoða eða beita sér fyrir styttingu afgreiðslutímans. Ég veit ekki um ykkur, en ég hef meiri trú á aðkomu og verkum dómsmálaráðherra til að brúa bilið og auðvelda foreldrum ungra barna í Reykjavík lífið. Verkin tala nefnilega.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×