Efnahagsreikningur Kviku hefur vaxið um 25 prósent að meðaltali á ári frá lokum árs 2015. Þessi vöxtur hefur að mestu komið með ytri vexti og tvöfaldaðist Kvika við sameiningu við TM.
Jakobsson Capital verðmetur Kviku banka á 23,3 krónur á hlut. Það er 27 prósentum hærra er en markaðsvirðið. Gert er ráð fyrir að vöxtur bankans verði fjögur prósent á ári. Ef gert er ráð fyrir tíu prósent vexti, sem er nær sögulegum vexti Kviku væri verðmatsgengið þriggja stafa tala.
Þótt það verði ekkert af sameiningu Kviku og Íslandsbanka er ljóst að það verður enginn heimsendir fyrir Kviku enda sá banki sem hefur mest vaxtartækifæri.
Meira en mánuður er liðinn frá því að tilkynnt var um samrunaviðræður á milli Kviku og Íslandsbanka. Ljóst var frá upphafi að samrunaferlið tæki langan tíma. „Hvort að af samruna verður og í hvaða formi ræðst svo af Samkeppniseftirlitinu. Hvað sem því líður er ljóst af Kvika er með pálmann í höndunum, samanborið við viðskiptabankana, er viðkemur tækifærum til vaxtar. Viðskiptabönkunum er þröngt sniðinn stakkur,“ segir í verðmatinu og er nefnt að Samkeppnieftirlitið meti viðskiptabankamarkað sem fákeppnismarkað og að vegna þjóðhagsvarúðarsjónarmiða sé vöxtur á erlendri grundu háður takmörkunum.
„Þótt það verði ekkert af sameiningu Kviku og Íslandsbanka er ljóst að það verður enginn heimsendir fyrir Kviku enda sá banki sem hefur mest vaxtartækifæri,“ segir í greiningunni.
Árið 2022 hjá Kviku litaðist af slæmu gengi fjármálamarkaðar. Hagnaður Kviku fyrir skatt nam 5,6 milljörðum króna samanborið við tæplega 10,5 milljarða króna árið 2021. Arðsemi eiginfjár miðað við skráð eigið fé nam 6,2 prósent árið 2022 samanborið við 21,9 prósent árið 2021.
Samkvæmt fjárfestakynningu var arðsemi á eiginfjár á áhættugrunni 13,1 prósent árið 2022 samanborið við 34,7 prósent árið 2021. Meginástæða lakari afkomu árið 2022 en árið 2021 var 5,7 milljarða króna neikvæð sveifla í fjármagnstekjum.
Hreinar vaxtatekjur Kviku námu tæplega 7,7 milljörðum króna árið 2022 samanborið við rúmlega 4,6 milljarða króna árið 2021 og jukust um 65 prósent. Stjórnendur Kviku hafa unnið í því að auka vægi lána en vægi lána í efnahagsreikningi fór úr rétt rúmlega 29 prósent í lok árs 2021 upp í rúmlega 35 prósent í lok árs 2022. Útlánavöxtur nam 29 prósent árið 2022.
Í ljósi þess að vaxtatekjur jukust meira en útlánavöxtur hækkaði vaxtamunur á meðalstöðu eigna úr 2,5 prósent árið 2021 upp í 2,8 prósent árið 2022. Það vekur þó athygli greinanda að vöxtur vaxtatekna á fjórða ársfjórðungi var aðeins ellefu prósentum en hreinar vaxtatekjur voru aðeins rúmlega 1,9 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi 2022 samanborið rúmlega 1,7 milljarðar króna á fjórða ársfjórðungi 2021.
Lánasafn Kviku er nokkuð ólíkt lánasafns viðskiptabankanna þriggja. Kvika lánar mikið til kaupa á ökutækjum og vinnuvélum ásamt brúarlánum á meðan vægi veðtryggðra íbúðalána er hátt hjá bönkunum. Þannig er útlánaáhætta meiri hjá Kviku en afkoman er að sama skapi mun hærri af slíkum lánum.
„Í ljósi lægri lausafjárhlutfalla, minna peningamagns í umferð og hærri vaxta mun hægja á útlánavexti og draga úr vaxtamun viðskiptabankanna. Ljóst er þó að svigrúm Kviku er verulegt og ólíkt hinum bönkunum er ekki útlit fyrir mikinn samdrátt í vaxtamun en lausafjárhlutföll Kviku eru margföld lágmarkskrafa,“ segir í verðmatinu.
Lausafjárþekjuhlutfall (LCR) Kviku var 290 prósent í lok árs 2022. Hlutfallið var 158 prósent hjá Arion banka, 205 prósent hjá Íslandsbanka og 134 prósent hjá Landsbankanum. Krafan er 100 prósent fyrir alla gjaldmiðla. Mest virðist þó kreppa að í íslenskum krónum hjá íslenskum fjármálastofnunum þar sem lausafjárþekjuhlutfallið er 182 prósent hjá Kviku, 115 prósent hjá Arion, 109 prósent hjá Íslandsbanka og 90 prósent hjá Landsbankanum. Krafan í íslenskum krónum er 50 prósent árið 2023 en var 40 prósent. Seðlabankinn er því að herða tökin. Rétt er að benda á að skráðar eignir eru allar færðar á markaðsvirði en ekki kaupvirði hjá íslensku bönkunum. Framangreint þýðir að ekkert óinnleyst gengistap var af skráðum eignum um áramótin hjá íslensku bönkunum líkt og hjá SVB.
Jakobsson Capital þótti óútskýrð kostnaðaraukning Kviku vera „fullmikil“ árið 2022. Forstjóri Kviku upplýsti á kynningarfundi í hverju hún lá. „Kvika hefur verið í mikill þróunarvinnu upp á síðkastið. Kvika mun fljótlega bjóða upp á alhliða bankaþjónustu á netinu í gegnum Aur appið. Framangreint smáforrit mun bjóða upp á greiðslulausn og greiðslukort, launareikning og tryggingar. Auk þeirra lausna sem Aur bauð upp á áður. Það eru hraðar breytingar á bankamarkaði. Ljóst er að vöxtur hinnar nýju þjónustu mun verða töluvert hraðari ef Kvika sameinast Íslandsbanka sem hefur mun stærra viðskiptamannanet,“ segir í greiningunni. Gert er ráð fyrir að draga muni úr kornstaði vegna viðskiptaþróunar í ár.
Kvika á meðal annars tryggingafélagið TM. „Útlit er fyrir að árið 2023 verði þungt í tryggingarrekstri. Umsvif í hagkerfinu eru í hámarki og útlit fyrir met í komum ferðamanna. Það er því gert ráð fyrir nær óbreyttri afkomu tryggingarrekstrar,“ segir Jakobsson Capital.
Fram kemur í verðmatinu að hlutabréfamarkaðurinn hafi verið „hauslaus“ frá miðjum febrúar eftir ágætis byrjun á árinu. „Hagnaður Bónus eða Krónunnar verður ekki minni þótt lítill rafmyntabanki í Bandaríkjunum fari í þrot. Markaðsvirði fasteignafélaganna er orðið svo lágt að fermetraverðið er farið að nálgast 350 þúsund krónur fermetrann. Eitthvað sem fjölbýli á Raufarhöfn eða kjallari á Ólafsfirði eiga erfitt að keppa við,“ segir Jakobsson Capital.
Það eru þó blikur á lofti í bankamarkaði. „Ljóst er að skarpar stýrivaxtahækkanir Seðlabanka Íslands munu setja mörg heimili í vanda. Áhrif stýrivaxtahækkana á fjárhag heimilanna kemur ekki strax fram. Greiðsluvandræðin byrja yfirleitt ekki á fyrsta degi. Það er gert ráð fyrir að virðisrýrnun útlána Kviku nemi um 0,9 prósent af heildarútlánum árið 2024.“
Kvika er stór lánveitandi í bílalánum og brúarlánum. Það mun, að mati Jakobsson Capital, koma rúmlega 0,5 milljarða króna „högg“ í afkomu efnahagsreiknings árið 2024. Hlutfallslega er höggið minna en hjá viðskiptabönkunum þar sem vægi útlána er minna.
„Á móti mun hægjast á hjólum atvinnulífsins og tryggingarrekstur kemur sterkt inn,“ segir í verðmatinu. Gert er ráð fyrir 0,4 milljarða króna rekstrarbata í tryggingarrekstri árið 2024. „Tryggingarrekstur verður því betri en árið 2022 en nokkuð frá metárinu 2021. Hagnaður fyrir skatt verður því svipaður árið 2024 og árið 2023. Hins vegar munu skattgreiðslur hækka þar sem gert er ráð fyrir að yfirfæranlegt skattalegt tap verði fullnýtt það ár,“ segir í verðmatinu.