Metfjöldi fugla og dýra hefur drepist í nýjasta faraldri fuglaflensu í heiminum. Afar fátítt er þó að veiran berist í menn.
Þrír af helstu framleiðendum flensubóluefnis í heiminum, GSK, Moderna og CSL Seqirus, segja Reuters-fréttastofunni að þeir vinni nú þegar að þróun bóluefnis fyrir menn til að verjast mögulegum faraldri. Rannsóknir á virkni séu í þann veg að hefjast. Vinna við þróun bóluefnis fyrir fugla gegn veirunni er einnig í gangi.
Ríkar þjóðir eiga hins vegar kauprétt á meirihluta mögulegra bóluefnaskammta gegn fuglaflensu. Richard Hatchett, forstjóri CEPI, stofnunar sem tekur þátt í fjármögnun þróunar bóluefna, segist óttast enn frekari misskiptingu bóluefna en þá sem var í kórónuveiruheimsfaraldrinum,
„Við gætum hugsanlega lent í mun verri vandamálum með hamstur á bóluefnum og bóluefnaþjóðernishyggju í fuglaflensufaraldri en við sáum í Covid,“ segir hann.
Þannig bólusettu ríkar þjóðir stóran hluta borgara sinna áður en þær huguðu að því að deila efnunum með snauðari þjóðum þrátt fyrir að viðbragðsáætlanir þeirra gerðu ráð fyrir að bóluefnin færu til þeirra sem væru í viðkvæmustu stöðu ef efnin væru af skornum skammti.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir að nærri því tuttugu bóluefni gegn svonefndu H5-afbrigði flensunnar séu með markaðsleyfi í heiminum. Núverandi meðferð fyrir fólk sem hefur smitast af fuglaflensunni geti einnig hjálpað ef til faraldurs kemur.