Erlent

Ríkis­stjórn Frakk­lands heldur velli

Árni Sæberg skrifar
Emmanuel Macron Frakklandsforseti fagnar niðurstöðu þingsins væntanlega í hófi, enda bíða hans frekari erfiðleikar á næstunni.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti fagnar niðurstöðu þingsins væntanlega í hófi, enda bíða hans frekari erfiðleikar á næstunni. EPA/GONZALO FUENTES

Vantrauststillaga á hendur ríkisstjórn Frakklands var felld með minnsta mun í dag. Ríkisstjórnin heldur því velli á meðan Frakkar mótmæla á götum úti.

Mótmælt hefur verið á götum Frakklands síðustu daga eftir að Emmanuel Macron Frakklandsforseti ákvað að fara fram hjá þinginu til þess að lögfesta frumvarp sitt um hækkun eftirlaunaaldurs um tvö ár. Fari frumvarpið í gegn munu Frakkar þurfa að vinna allt til 64 ára aldurs í stað 62.

Á föstudag lögðu þingmenn þriggja flokka í minnihluta franska þingsins fram vantrauststillögu gagnvart ríkisstjórninni. Tillagan var felld í dag með minnsta mun. 278 þingmenn greiddu atkvæði með henni en aðeins níu í viðbót, 287, þurfti til þess að hún yrði samþykkt. Reuters greinir frá.

Hefði tillagan hlotið brautargengi hefði ríkisstjórnin þurft að segja af sér en Macron sjálfur hefði setið áfram.

Jafnvel þó tillögunni hafi verið hafnað telja sérfræðingar mögulegt að Macron muni hrista upp í ríkisstjórninni til að friða mótmælendur og jafnvel boða til nýrra þingkosninga, þó það sé talið ólíklegt á þessum tímapunkti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×