Lífið

Paltrow fyrir dóm vegna á­rekstursins í skíða­brekkunni 2016

Atli Ísleifsson skrifar
Gwyneth Paltrow á viðburði í Los Angeles 2019.
Gwyneth Paltrow á viðburði í Los Angeles 2019. EPA

Bandaríska leikkonan Gwyneth Paltrow þarf að mæta í dómsal síðar í dag vegna máls sem 76 ára maður höfðaði gegn henni sökum áreksturs í skíðabrekku í Utah árið 2016.

AP segir frá því að dómari geri ráð fyrir að réttarhöld standi í viku og hefjast þau síðdegis í dag.

Hinn 76 ára Terry Sanderson, sem er læknir á eftirlaunum og býr í Utah, vill meina að Paltrow hafi skíðað með mjög óábyrgum hætti sem varð til þess að hún rakst á hann í skíðabrekku í Dear Valley Resort í Park City.

Í stefnunni segir að kvikmyndastjarnan hafi klesst harkalega á hann með þeim afleiðingum að hann hafi dottið um koll. Sanderson segist meðal annars hafa hlotið höfuðáverka, auk þess að fjögur rifbein brotnuðu í líkama hans.

Í stefnunni segir ennfremur að Paltrow hafi staðið strax upp eftir áreksturinn og haldið förinni áfram niður brekkuna, án þess að kanna hvort að í lagi væri með Sanderson.

Paltrow er þó ekki sammála Sanderson og vill meina að það hafi verið Sanderson sem hafi klesst á sig. Þá segir hún Sanderson hafa ýkt meiðsli sín og að hann reyni með stefnunni að notfæra sér frægð hennar og ríkidæmi.

Sanderson krefst þess að fá jafnvirði fjörutíu milljóna króna í skaðabætur frá Paltrow.

AP segir frá því að muni ráða úrslitum í málinu hvort Paltrow eða Sanderson takist að sanna hvort þeirra hafi verið statt neðar í brekkunni þegar áreksturinn varð. Bæði vilja þau meina að hitt hafi klesst á þau aftan frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.