Á vef Veðurstofunnar má sjá að gular veðurviðvaranir eru í gildi til kvölds, en þeir hyggja á ferðalög eru hvattir til að kynnar sér þær og ástand vega áður en lagt er af stað. Viðvaranirnar eru í gildi á Suðurlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi.
Lægðin fjarlægist í dag og grynnist heldur, en dregur þá jafnframt úr vindi. Frost verður á bilinu núll til átta stig þar sem kaldast verður í innsveitum norðaustanlands.
„Norðaustankaldi eða -strekkingur og víða dálítil él á morgun, en bjartviðri og Suður- og Vesturlandi. Áfram frost í öllum landshlutum, en sums staðar frostlaust við suður- og vesturströndina að deginum.
Dregur að líkindum enn frekar úr vindi um helgina, en víða lítilsháttar snjókoma eða él og áfram kalt,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðaustan 8-15 m/s og dálítil él, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Frost víða 0 til 8 stig, en frostlaust syðst.
Á föstudag og laugardag: Norðaustan átt, víða 8-13 m/s og smá él, einkum með norðurströndinni, en lengst af léttskýjað syðra. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.
Á sunnudag og mánudag: Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt og allvíða dálítli snjókoma eða él, en áfram kalt í veðri.
Á þriðjudag: Útlit fyrir vaxandi austanátt með snjókomu syðst á landinu og áfram talsverðu frosti.