Körfubolti

Annar sigur ÍR í Subway-deildinni staðreynd

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sólrún Sæmundsdóttir skoraði níu stig fyrir ÍR í kvöld.
Sólrún Sæmundsdóttir skoraði níu stig fyrir ÍR í kvöld. Vísir/Bára

ÍR vann sinn annan sigur í Subway-deild kvenna í vetur þegar liðið vann tveggja stiga sigur á Breiðablik á útivelli í kvöld.

Lið ÍR er fallið úr Subway-deildinni fyrir töluverðu síðan en mætti í kvöld Breiðabliks sem var í sætinu fyrir ofan í Subway-deildinni.

Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi allan tímann en mest munaði níu stigum á liðunum í leiknum. Breiðablik var sex stigum yfir í hálfleik, staðan þá 48-42.

Í síðari hálfleik voru gestirnir hins vegar sterkari. Greeta Uprus var í aðalhlutverki hjá ÍR sem minnkaði muninn í eitt stig fyrir lokafjórðunginn. 

Þar skiptust liðin á forystunni. ÍR komst í 78-75 með þriggja stiga körfu þegar ein og hálf mínúta var eftir en Blikar minnkuðu muninn í næstu sókn. Sólrún Sæmundsdóttir skoraði úr einu víti þegar fjórtán sekúndur voru eftir og kom ÍR þá í 79-77 en ÍR náði sóknarfrákasti eftir seinna vítið og Blikum tókst ekki að komast í sókn.

Lokatölur 79-77 og annar sigur ÍR í Subway-deildinni í vetur því staðreynd.

Greeta Uprus var stigahæst hjá ÍR með 27 stig, Rebekka Rut Hjálmarsdóttir og Margrét Blöndal skoruðu 13 stig hvor. Hjá Breiðablik var Birgit Ósk Snorradóttir stigahæst með 22 stig, Rósa Björk Pétursdóttir skoraði 18 og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×