Innlent

Sinu­bruninn kviknaði í skóla­ferða­lagi: „Við­komandi aðili er miður sín“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mikill viðbúnaður hefur verið vegna brunans.
Mikill viðbúnaður hefur verið vegna brunans. Vísir/Vilhelm

Sinubruninn sem logar nú við Straumsvík við Hafnarfjörð kviknaði við óvarlega meðferð elds í skólaferðalagi, líklega af völdum blyss. Skólameistari við Menntaskólann í Kópavogi segir að nemendur séu miður sín.

Tilkynnt var um gróðureld nærri Óttarsstöðum í Straumsvík um klukkan 13:00 í dag. Á þriðja tug slökkviliðsmanna hefur glímt við eldinn, með aðstoð björgunarsveita og lögreglu. 

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi voru í skólaferðalagi, nánar tiltekið í fjöruferð, þar sem verið var að leita hráefna til eldamennsku. 

Þessi skúr varð eldinum að bráð.Vísir/Egill

Guðríður Eldey Arnardóttir, skólameistari við menntaskólann, segir að eldinn megi rekja til óvarlegrar meðferðar á eldfærum.

„Þetta var nú ekki flugeldur held ég, en einhvers konar blys eða slíkt.  Ég held að það átti sig mjög fáir á því um hávetur að landið geti verið orðið svona þurrt og útsett fyrir sinueldum. En svona er auðvitað óviljaverk og viðkomandi aðili er miður sín yfir þessu. Þannig að þetta var hugsunarleysi.“

Hún segir að kennarar sem með voru í för hafi reynt að hefta útbreiðsluna en hringt í viðbragðsaðila þegar í ljós kom að það gengi ekki eftir. Guðríður Eldey segir að allt hafi verið reynt.

„Þetta er bara algjörlega ömurlegt. Það eru allir sem að málinu koma miður sín, það er bara þannig.“

Að neðan má sjá myndskeið frá vettvangi sem Egill Aðalsteinsson tökumaður okkar tók.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×