„Þetta var svekkjandi tap. Við vildum ekki byrja svona og þetta var slæmt tap. Við verðum að læra af þessu og skoða hvaða mistök við gerðum. Við héldum að við myndum geta strítt þeim meira en við gerðum,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson í viðtali við Val Pál Eiríksson eftir leik.
Jóhann Berg var svekktur með mörkin sem Ísland fékk á sig og sagði að framherjar Bosníu reyndust þeim erfiðir.
„Mér fannst við aðeins of opnir og við vorum ekki eins þéttir og við vildum vera. Þeir voru með tvo sterka framherja sem gerði okkur erfitt fyrir.“
„Í dag var gæðamunur á liðunum. Við þurfum að læra af þessum leik og spila töluvert betur gegn þeim. Við eigum heimaleikinn gegn Bosníu eftir og þá munum við gera töluvert betur heldur en í kvöld.“
Ísland var meira með boltanum í kvöld heldur en Bosnía. Jóhann Berg hefði hins vegar viljað fá fleiri færi.
„Við vorum mikið með boltann en mögulega gerðum við ekki nógu mikið með hann. Þeir nýttu sér það þegar við misstum boltann frá okkur og gerðu það hrikalega vel.“
Næsti leikur Íslands er gegn Liechtenstein og Jóhann Berg vill að liðið gleymi þessum leik gegn Bosníu sem allra fyrst.
„Við verðum að gleyma þessum leik eins fljótt og hægt er. Það er stutt í næsta leik og við verðum að hætta að hugsa um þennan leik og fara að einbeita okkur að næsta leik gegn Liechtenstein,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson að lokum.