Innlent

„Því­lík heppni að ekki hafi farið verr“

Máni Snær Þorláksson og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Þessir herramenn áttu fótum sínum fjör að launa.
Þessir herramenn áttu fótum sínum fjör að launa. Christiaan Bragi

Engan sakaði þegar tvær sprengingar urðu í gaskútum í nýbyggingu í Garðabæ í dag. Töluverður eldur braust út í kjölfarið. Gaskútur stórskemmdi bíl í nágrenninu og annar þeyttist í um hundrað metra frá nýbyggingunni. Búið er að slökkva eldinn og slökkvilið leitar nú af sér allan grun með hitamyndavélum. 

Mikill reykur rauk upp úr nýbyggingunni, sem er í Eskiási, vegna eldsins. Fréttastofu hafa borist ábendingar og myndbönd frá íbúum á svæðinu og eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan voru sprengingarnar mjög öflugar. 

Klippa: Sprenging í Garðabæ

Svæðinu í kring, sem og götunni sem byggingin stendur við, var lokað um stund á meðan vinnu slökkviliðs stóð. Eins og fyrr segir sakaði engan í sprenginunni, að sögn Helga Hjörleifssonar, hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. 

Mikinn svartan reyk bar frá eldinum í dag.Aðsend

Hann segir að búið sé að slökkva eldinn, lítill reykur sé á svæðinu en verið sé að fara yfir svæðið með hitamyndavél. Líklegt sé að kviknað hafi í þakklæðningu við vinnu í nýbyggingunni, þó hann geti ekki slegið því föstu.

Skjáskot úr myndbandi sem barst fréttastofu.Skjáskot

„Það er þvílík heppni að ekki hafi farið verr, það urðu engin slys á fólki eða neitt svoleiðis. Þetta eru gaskútar sem virðast hafa sprungið á þakinu,“ segir Helgi.

Sjónarvottur segir í samtali við fréttastofu að tveir gaskútar hafi sprungið og þeyst tugi metra frá brennandi þakklæðningu í nýbyggingunni. Ljósmyndari Vísis myndaði þennan gaskút í um 100 metra fjarlægð frá byggingunni. Annar hæfði bíl sem stórskemmdist.

Sjónarvottur lýsti því að mjóu hafi mátt muna. Gangandi vegfarendur áttu leið hjá þegar gaskúturinn þeyttist í um hundrað metra við sprenginguna.Vísir/Vilhelm

Yngvi Snær Bjarnason var heima að tefla þegar sprengingarnar urðu. Hann segir veggi og gler hafa nötrað. Hann hafi strax óttast að einhver hefði slasast.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum, ljósmyndum og myndskeiðum á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×