Erlent

Gríðar­leg eyði­legging í Mississippi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Gríðarleg eyðilegging er eftir óveðrið.
Gríðarleg eyðilegging er eftir óveðrið. AP Photo/Rogelio V. Solis

Að minnsta kosti 24 eru látnir eftir kraftmikinn hvirfilbyl sem herjaði á Missisippi í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Þúsundir eru án rafmagns og stendur leit að fólki í húsarústum yfir. Óveðrið er hið mannskæðasta í tólf ár.

Gríðarleg eyðilegging blasir nú við íbúum á stóru svæði í Mississippi eftir að hvirfilbylurinn herjaði á ríkið og lagði þar allt í rúst. Tugir bygginga eyðilögust í veðurofsanum, húsþök losnuðu og raflínur skemmdust. Þúsundir eru án rafmagns.

„Við erum rétt fyrir utan Rolling Fork og það er stór hvirfilbylur að nálgast bæinn. Bærinn er beint á braut hvirfilbylsins og við erum rétt sunnan við bæinn. Hvirfilbylurinn stefnir beint að okkur,“ sagði viðmælandi við AP-fréttaveituna í gær.

Björgunarsveitir vinna nú að leit að fólki í húsarústum og aðstoða íbúa á svæðinu. Tala látinna stendur í tuttugu og fjórum, fjögurra er saknað og tugir slasaðir. Mikið er um hjólhýsabyggð á stóru svæði og segir íbúi að hvert einasta hjólhýsi hafi fokið burt.

„Um klukkan 8:20 fóru skýstrókasírenurnar af stað til að vara fólkið við svo það gæti leitað skjóls. Þetta gerðist svo hratt. Núna eru mörg hús skemmd á borgarsvæðinu og einnig á öðrum svæðum í sýslunni,“ segir Bruce Williams, lögreglustjóri í Tennessee.

Joe Biden Bandaríkjaforseti vottaði samúð í yfirlýsingu í dag og hvatti Bandaríkjamenn til að biðja fyrir fjölskyldum sem eiga um sárt að binda. Þá hefur ríkisstjóri Mississipi lýst yfir neyðarástandi vegna óveðursins, samkvæmt CNN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×