Innlent

Gular við­varanir á næsta leiti

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Í kortunum er snjókoma og skafrenningur.
Í kortunum er snjókoma og skafrenningur. Vísir/Vilhelm

Gular viðvaranir taka gildi á Suðurlandi, Austfjörðum og Suðausturlandi á morgun. 

Strax klukkan sex í fyrramálið má gera ráð fyrir snjókomu og litlu skyggni á Suðurlandi. Vindur verður nokkur og líkur eru á samgöngutruflunum, einkum undir Eyjafjöllum og í Fljótshlíð. Viðvörunin stendur til klukkan 17:00 síðdegis.

Veðrið færist suðaustur yfir landið um hádegisbil. Gera má ráð fyrir suðaustan 10 til 18 metrum á sekúndu með snjókomu eða skafrenningi fram eftir degi.

Annað kvöld tekur við suðaustanhríð á Austfjörðum með 10 til 18 metrum á sekúndu og snjókomu eða skafrenningi. Lítið skyggni verður á köflum og líkur eru á samgöngutruflunum. 

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar, segir að þétt snjókoma geri líklega vart við sig klukkan níu í fyrramálið og fram á kvöld. Mest verði snjókoman milli Víkur og Jökulsárlóns og skyggni geti verið lítið. 

Svona lítur kortið út klukkan 12:00 á morgun.Veðurstofan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×