Umræðan

Sinn­u­leys­i í skól­a­mál­um

Helgi Vífill Júlíusson skrifar

Öflugt mennt­a­kerf­i er grund­völl­ur þess að byggj­a upp kraft­mik­inn hug­verk­a­iðn­að. Hann er þjóð­inn­i mik­il­væg­ur því tækn­i­fram­far­ir munu knýj­a hag­vöxt á 21. öld­inn­i. Góð mennt­un er söm­u­leið­is und­ir­stað­a lýð­ræð­is. Engu að síð­ur höf­um við ekki gætt að þess­u fjör­egg­i. Fjöld­i drengj­a ljúk­a ekki mennt­a­skól­a­nám­i og há­skól­ar lands­ins stand­ast ekki sam­an­burð við kepp­i­naut­a sína á hin­um Norð­ur­lönd­un­um. Já, þeir eiga í al­þjóð­legr­i sam­keppn­i.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vakti athygli á því á Iðnþingi á dögunum að fyrir hverja stúlku sem hættir í framhaldsskóla hverfa frá námi næstum tveir drengir. Vandinn hefur aukist hröðum skrefum á undanförnum árum. „Hvergi í Evrópu er staðan verri,“ sagði hún.

Það gefur auga leið að vandinn á rætur að rekja til grunnskólastarfsins. Skólakerfið er jú heildstæð keðja þótt hún sé brotin upp eftir skólastigum.

Tryggja þarf að fleiri drengir fái notið sín í skóla og auka þannig möguleika þeirra á að blómstra í lífi og starfi á fullorðinsárum. Það liggur í hlutarins eðli að nemendur sem hætta í framhaldsskóla sækja sér síður háskólamenntun. Ungt fólk hér á landi, á aldrinum 25-34, er ólíklegra til að hafa útskrifast úr háskóla en víða annars staðar. Hlutfallið er 42 prósent hér á landi, 48 prósent að meðaltali í OECD ríkjunum og til dæmis 55 prósent í Noregi – sem nota bene er ríkt af auðlindum.

Athygli vekur að barnamálaráðherra hefur ekki stigið fram og rætt hvernig eigi að takast á við brottfallið. Kennarar og skólastjórnendur halda sig sömuleiðis til hlés í opinberri umræðu hvað þetta varðar.

Til að bæta gráu ofan á svart vakti háskólaráðherrann athygli háskólar hérlendis eru í hópi verstu háskóla Norðurlandanna. Niðurstöður Times Higher Education árið 2022 sýna að af 37 norrænum háskólum þá er Háskóli Íslands í 32. sæti. Háskólinn í Reykjavík rekur lestina í 37. sæti í gæði kennslu.

Í heimspekikúrs sem pistlahöfundur sat sagði prófessor að löstur nútímans væri hugsunarleysi. Veraldarhyggja hafi fest klær í samfélaginu. Það má eflaust til sannsvegar færa. Hvernig komið er fyrir menntakerfinu hlýtur þó að vera sinnuleysi. Náttúruauðlindirnar gerðu okkur værukær.

Mikil hagsæld hérlendis á 20. öldinni má nefnilega þakka hagnýtingu náttúruauðlinda sem krafðist ekki mikillar menntunar. Þær eru takmörkunum háðar, við veiðum til dæmis ekki fleiri tonn úr sjónum. Sala á hugviti er hins vegar án takmarkanna. Þess vegna verða tæknigreinar að taka við keflinu og knýja hagvöxt á 21. öldinni. Íslendingar munu þó tæplega standast öðrum þjóðum snúning á því sviði nema að hafa aflað sér góðrar menntunar.

Náttúruauðlindirnar gerðu okkur værukær.

Spegilmynd af þessum vanda sem við er að etja er að ungt menntað hefur flutt af landi brott í miklu mæli á sama tíma og erlendir verkamenn hafa flutt í unnvörpum til landsins. Þetta lýsir því ágætlega hvernig störfum burðaratvinnugreinar í hagkerfinu þurfa á að halda.

Ferðaþjónusta bjargaði hagkerfinu eftir bankahrun en því miður gerði uppgangur hennar það að verkum að hagkerfið treysti í enn meira mæli á náttúruauðlindir. Og minna á menntun.

Við verðum að skapa áhugaverð störf í hugverkaiðnaði til að halda í unga menntaða fólkið og skapa velmegun hér á landi. Annars er hætta á að hagsæld nágrannaþjóða verði áberandi meiri en okkar sem aftur myndi auka á landflótta menntafólks.

Ísland er fámenn þjóð og okkur skortir þekkingu á mörgum sviðum. Ef við viljum fá vel menntaða sérfræðinga hingað til lands þarf skólakerfið að vera til fyrirmyndar. Erlendir sérfræðingar sem hafa gengið menntaveginn, jafnvel sótt nám við framúrskarandi skóla, vilja börn sín hljóti góða menntun. Eins og sakir standa er menntakerfið Þrándur í Götu. Íslenskir nemendur hafa til að mynda ekki staðið sig nægilega vel í PISA-könnunum.

Það er ekki hægt að reisa tollagirðingar og vernda þannig hátækniiðnaðinn hafi einhverjum dottið það í hug. Þetta er útflutningsgrein.

Skólar eiga í alþjóðlegri samkeppni. Val foreldra stendur ef til vill ekki á milli þess að börn gangi í grunnskóla á Íslandi eða í Bretlandi. Heimsvæðingin hefur þó gert það að verkum að keppt er um heim allan, til dæmis í gegnum netið, í hver býr til besta hugverkið. Skólakerfið þarf að undirbúa nemendur undir þá samkeppni. (Það er ekki hægt að reisa tollagirðingar og vernda þannig hátækniiðnaðinn hafi einhverjum dottið það í hug. Þetta er útflutningsgrein.)

Sumu skólafólki sárnar að heimsvæðingin hefur gert skóla einsleitari en það þarf hins vegar að líta á menntakerfið í alþjóðlegu samhengi þegar námsefni er hannað. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir þessum veruleika.

Í grunninn er þetta lítt dulinn andúð á kapítalisma.

Skólakerfið þarf að mennta nemendur til að glíma við samtímann og áskoranir framtíðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að gera raungreinum og skapandi greinum hátt undir höfði. Borið hefur á umræðu að háskólar eigi ekki að þjóna „einkafyrirtækjum“ með slíkum hætti. Í grunninn er þetta lítt dulinn andúð á kapítalisma. 

Það hljóta flestir að vera sammála um að skólar eigi að undirbúa nemendur fyrir líf og störf. Háskólar hafa frá fornu fari menntað fólk til að gegna ýmsum störfum í þágu þjóðfélagsins, svo sem presta, embættismenn, heilbrigðisstarfsfólk og kennara. Það að háskólar undirbúi nemendur undir praktísk störf er því ekki nýtt af nálinni.

Björn M. Ólsen, fyrsti rektor Háskóla Íslands, sagði að markmið háskóla væri fyrst og fremst tvennt; að leita sannleikans í hverri fræðigrein fyrir sig og leiðbeina þeim sem væru í sannleiksleit.

Hann sagði líka að flestir háskóli hafi það að markmiði að „veita mönnum þá undirbúningsmenntun, sem þeim er nauðsynleg, til þess að geta tekist á hendur ýmis embætti og sýslanir í þjóðfélaginu. Þetta starf háskólanna er mjög nytsamlegt fyrir þjóðfélagið.“

Páll Skúlason, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, nálgaðist menntun ekki síður á áhugaverðan hátt. Hann sagði: „Að menntast er þá að verða meira maður - ekki meiri maður - í þeim skilningi að þær gáfur eða eiginleikar sem gera manninn mennskan fái notið sín, vaxi og dafni eðlilega.”

Menntun eflir andann og er mannbætandi. Það gerir sinnuleysið í skólamálum ef til vill enn alvarlegra.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja.




Umræðan

Sjá meira


×