Þetta segir þjálfari liðsins, Sarina Wiegman, en Mead sleit krossband í nóvember á síðasta ári. Heimsmeistaramótið í Ástralíu og Nýja-Sjálandi hefst þann 20. júlí næstkomandi, og fyrsti leikur enska liðsins er gegn Haíti tveimur dögum síðar.
„Við erum bara raunsæ og hún er mjög raunsæ,“ sagði Wiegman um stöðuna á Mead í dag.
„Eins og staðan er núna er hún ekki hluti af okkar plönum því hún þarf að taka sér tíma í að ná sér að fullu. Ef að kraftaverkið gerist og hún nær sér nógu fljótt þá munum við auðvitað endurskoða það, en eins og staðan er núna býst ég ekki við því.“
Enska liðið tekur á móti Brasilíu í vináttuleik þann 5. apríl næstkomandi áður en liðið fær Ástralíu í heimsókn fimm dögum síðar. Verða það seinustu tveir æfingaleikir liðsins fyrir HM.
„Hún er komin mjög langt í sinni endurhæfingu,“ bætti Wiegman við. „En ef þú horfir á þann tíma sem það tekur venjulega að ná sér af svona meiðslum þá er hún ekki að fara að ná HM.“
„Við erum búin að ræða þetta við hana. Við munum ekki taka neinar áhættur sem gætu orðið til þess að hún meiðist aftur. Auðvitað vill hún spila, en hún veit hver staðan er.“