Innherji

Stjórnar­for­maður og annar stærsti hlut­hafi Nova felldur í kjöri til stjórnar

Hörður Ægisson skrifar
Hugh Short hefur verið stjórnarformaður Nova síðustu ár.
Hugh Short hefur verið stjórnarformaður Nova síðustu ár.

Hugh Short, stjórnarformaður Nova, hlaut ekki brautargengi í kosningu til stjórnar fjarskiptafélagsins á aðalfundi sem lauk fyrir skemmstu, samkvæmt heimildum Innherja, þrátt fyrir að hafa verið á meðal þeirra fimm einstaklinga sem tilnefningarnefnd hafði mælt með.

Hugh er fjárfestingastjóri hjá bandaríska fjárfestingafélaginu PT Capital sem er næst stærsti hluthafi Nova – á eftir sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni – með rúmlega ellefu prósenta hlut.

Þeir sem voru kosnir í stjórn Nova á aðalfundi félagsins fyrr í dag eru Hrund Rudolfsdóttir, Jón Óttar Birgisson, Jóhannes Þorsteinsson, Sigríður Olgeirsdóttir og Magnús Árnason.

Hrund og Jón Óttar hafa verið í stjórn fjarskiptafélagsins en hin koma ný inn í stjórnina.

Magnús, sem var framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova á árunum 2017 til 2022, bauð sig fram í stjórnarkjörinu þrátt fyrir að tilnefningarnefndin hafi ekki lagt til að hann yrði kjörin í stjórn.

Auk PT Capital og Stefnis eru stærstu hluthafar Nova lífeyrissjóðirnir Birta, LSR og Lífsverk. Markaðsvirði félagsins er tæplega 15 milljarðar og hefur lækkað um liðlega fimmtung frá því að það var skráð á markað í júní í fyrra en þá seldi PT Capital stóran hluta bréfa sinn í Nova á genginu 5,11 krónur á hlut. Hlutabréfaverðið er í dag tæplega 3,9 krónur á hlut.

Hugh Short hafði lýst því yfir fyrr í vetur að félagið ætli sér ekki að selja hlut sinn í fjarskiptafyrirtækinu á næstunni. 

Pt Capital eignaðist fyrst 50 prósenta hlut í félaginu árið 2017. Þá keypti PT Capital eftirstandandi helmingshlut Novator í ágúst 2021 og eignaðist við það nærri allt hlutafé fjarskiptafélagsins.


Tengdar fréttir

LSR byggir upp stöðu í fjarskiptafélaginu Nova

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er orðinn einn allra stærsti hluthafi Nova eftir að hafa sópað upp bréfum í fjarskiptafélaginu á síðustu dögum ársins 2022. Hlutabréfaverð Nova, sem hefur átt undir högg að sækja frá því að það var skráð á markað um mitt síðasta ár, hefur farið hækkandi undanfarnar vikur og ekki verið hærra frá því um miðjan september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×