Erlent

Pistorius gæti losnað úr fangelsi innan nokkurra vikna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pistorius var oft aumur í dómsal og grét.
Pistorius var oft aumur í dómsal og grét. epa/STR

Íþróttamaðurinn Oscar Pistorius, sem dæmdur var í fangelsi fyrir að skjóta kærustu sína til bana, gæti losnað úr fangelsi innan nokkurra vikna. Nefnd um reynslulausn mun á morgun ákveða hvort Pistorius verður sleppt.

Pistorius var dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir að verða Reevu Steenkamp að bana, þegar hann skaut fjórum sinnum gegnum baðherbergishurð á heimili sínu í Pretoriu í Suður-Afríku. Hann hefur nú afplánað helming dómsins.

Talsmaður fangelsismálayfirvalda í borginni segir liggja fyrir nefndinni að ákveða hvort markmiðunum með fangelsisvistun Pistorius hafi verið náð.

Saksóknarar sögðu Pistorius, 36 ára, hafa viljandi orðið Steenkamp að bana í reiði- og afbrýðisemiskasti. Íþróttamaðurinn neitaði hins vegar ásökununum, sagðist hafa elskað Steenkamp heitt og sagðist hafa talið að hann væri að vernda hana með því að skjóta á einhvern sem hefði brotist inn.

Dómarinn í málinu komst að þeirri niðurstöðu að Pistorius hefði ekki ætlað að myrða Steenkamp en hann væri engu að síður ábyrgur þar sem hann hefði verið of fljótur á sér og notað óhóflegt afl.

Málinu var áfrýjað og Pistorius dæmdur fyrir morð.

Pistorius átti fund með foreldrum Steenkamp, June og Barry, í fyrra. Yfirvöld fyrirskipuðu fundinn, sem miðar að því að gera föngum grein fyrir þeim skaða sem þeir hafa valdið og gefa þeim tækifæri á að gangast við honum.

June verður viðstödd fund reynslulausnarnefndarinnar á morgun en Barry er of veikur til að mæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×