Innlent

Héraðs­dómari kærir Margréti fyrir meið­yrði

Bjarki Sigurðsson skrifar
Margréti Friðriksdóttur hefur verið stefnt af héraðsdómara fyrir ummæli sín.
Margréti Friðriksdóttur hefur verið stefnt af héraðsdómara fyrir ummæli sín.

Barbara Björnsdóttir, héraðsdómari, hefur kært Margréti Friðriksdóttur, ritstjóra frettin.is, fyrir meiðyrði. Margrét var yfirheyrð af lögreglu vegna málsins í fyrradag. 

Margrét staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en DV.is greindi fyrst frá. 

Í samtali við fréttastofu segir Margrét að fari málið fyrir dóm verði það skrautlegustu málaferli sögunnar. 

„Lögreglan verður að ákveða það hvort þetta fari í ákæru, það yrði mjög skrautlegt. Allir héraðsdómarar landsins yrðu vanhæfir og það þyrfti að kalla inn nýja dómara,“ segir Margrét sem vill meina að hún sé saklaus, hún hafi einungis verið að segja sannleikann. 

Ummælin sem um ræðir lét Margrét falla eftir að hún var dæmd í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi vegna hótana í garð Semu Erlu Serdar. Vísir fjallaði um dóminn á sínum tíma. 

Í Facebook-færslu sem Margrét birti eftir að hún var sakfelld fór hún ófögrum orðum um Barböru og kallaði hana meðal annars siðblinda. 

„Þetta siðblinda pakk er auðsjáanlega að kalla eftir stríði sem þau munu fá, því ranglæti er eitthvað sem ég mun aldrei samþykkja, og enginn vill lenda á þeim stað,“ skrifaði Margrét í færslu sem hún hefur nú eitt af síðu sinni. 

Vill Margrét meina að Barbara hafi ekki farið eftir siðareglum og að verið sé að berja hana niður með lygina að vopni. 

Verjandi hennar í málinu sem Sema höfðaði var Arnar Þór Jónsson en hann sagði sig frá málinu eftir að Margrét lét ummælin falla. Við tók Skúli Sveinsson sem er lögmaður Margrétar í máli Barböru. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×