Skoðun

Heil­brigðari notkun á sam­fé­lags­miðlum

Mikael Lind skrifar

„Það er orðið skelfilega augljóst að tæknin okkar hefur farið fram úr mannkyninu” Albert Einstein.

Líf þar sem manni þarf aldrei að leiðast, það hlýtur að vera algjör blessun. Eða hvað? Það fer eftir því hvað kemur í staðinn. Bókin Veröld ný og góð eftir Aldous Huxley (1932) fjallar um dystópískt samfélag sem er ekki stjórnað af ótta heldur gert þægt af hamingju. Boðskapurinn er að líf án tilbreytinga er líka óæskilegt, því mannfólkið í bók Huxleys er í raun bara hamingjusamt á yfirborðskenndan hátt en í staðinn vantar það dýpri merkingu og sköpunarkraft. Sumir fræðimenn eru farnir sjá samsvörun í okkar samfélagi þar sem afþreying er nánast orðin að trúarbrögðum. Síminn hefur tekið að sér hlutverk stafræns nammipoka sem við opnum í hvert skipti sem okkur leiðist. Dagdreymi og íhugun virðist vera á leið út, og þess í stað kemur skyndiyndið, stöðug leit að skammgóðri unun.

Vissulega er síminn eitthvað meira en bara afþreyingartæki en við verðum samt að gera okkur grein fyrir að hann er ekki beint að stuðla að djúphugulli notkun og sérstaklega ekki að meiri lestri. Þrátt fyrir bjartsýni í fyrstu um getu fólks að lesa lengri greinar í tækjunum sínum virðast margar rannsóknir í dag sýna að venjulegur notandi lesi ónákvæmara og grynnra á skjá en á blaði. Það reynist allt fleirum erfitt að útiloka umhverfið og ná hugarró frá stafrænu áreiti og áhrifin sjást víða. Hugurinn getur einfaldlega ekki einbeitt sér að mörgu í einu (s.k. “multitasking”) heldur færir fókusinn fram og til baka á milli athafna, með afgerandi tapi á einbeitingu og hugarorku í kjölfarið. Rannsókn frá Háskólanum í London sýndi fram á að þegar starfsmenn gerðu próf á sama tíma og það var verið að trufla þá með tölvupóstum og símtölum misstu þeir að meðaltali 10 greindarvísitölustig, sem er hægt að bera saman við að kannabisneysla veldur 5 stiga tapi.

Á TikTok horfa notendur að meðaltali 15 sekúndur á hvert myndband, og við eyðum 15 sekúndum eða minna á yfir 55% af heimasíðunum sem við heimsækjum. Samkvæmt nýrri rannsókn yfirgefur helmingur notenda heimasíðu sem er lengri en 6 sekúndur að hlaðast. Það segir sig sjálft að við hegðum okkur öðruvísi þegar við dveljumst í þessum stafræna heimi en þegar við náum að aftengja okkur og lesa bók. Skáldsögur láta okkur ferðast inn í hugarheim annarra og skynja heiminn frá þeirra sjónarhorni, og rannsóknir sýna að þetta hefur jákvæð áhrif á samkennd og meðlíðan. Samfélagsmiðlar geta hins vegar haft öfug áhrif á okkur þar sem tæknirisarnir sem hanna þá græða á skautun, því við eigum það til að eyða meiri tíma í að skoða efni sem móðgar eða pirrar okkur frekar en eitthvað jákvætt. Sálfræðingar útskýra þetta þannig að heilinn setur okkur í varnarstöðu þegar eitthvað alvarlegt gerist í umhverfinu, og þess vegna eiga slys og hamfarir það til að gleypa athygli okkar. Tæknirisarnir misnota þessa staðreynd sér í hag.

Við eyðum gríðarlegum tíma í tækjunum okkar og eru flestir meðvitaðir um þetta. Í staðinn fyrir að stara 4 klukkutíma á símann eftir skóla eða vinnu segja margir að þeir hefðu frekar viljað notað mínúturnar í að lesa bók, hreyfa sig, eyða tíma með fjölskyldunni eða æfa sig á hljóðfæri, svo eitthvað sé nefnt. Samt finnst mörgum erfitt að koma þessu í verk vegna þess að símafíknin nær að yfirgnæfa allar iðjur sem krefjast meiri einbeitingar. Það er sem sagt ekki þannig að mikil símanotkun gerir okkur hamingjusama; samkvæmt nýjum tölum er hið gagnstæða nærri sannleikanum, og sálfræðingar eru farnir að sjá alvarlegar afleiðingar á andlega líðan sérstaklega hjá ungu fólki þar sem heilinn er ennþá að þróast. Það sem er gert til að gera okkur háða er að öppin senda stöðugt frá sér tilkynningar til notendanna til að láta þeim líða eins og þeir þurfi að bregðast við strax, þó svo að innihaldið sé sjaldnast mjög mikilvægt. Frítíminn okkar er orðinn að söluvöru tæknirisa sem hafa það sem viðskiptamódel að selja upplýsingar um okkur svo að önnur fyrirtæki geta síðan sérhannað auglýsingar sem birtast í flæðinu hjá okkur. Við kaupum meira ef allt gengur hratt fyrir sig; ef við höfum tíma til umhugsunar hættum við gjarnan við því oft vantar okkur í raun ekkert.

Tæknin er frábær en við verðum að læra að nota hann á heilbrigðan hátt og reyna að forðast þær venjur sem stela frá okkur mikilvægum tíma í lífinu. Þessi viðhorfsbreyting til samfélagsmiðla getur ekki bara átt sér stað á einstaklingsplani heldur verða stjórnmálamenn og aðrir í áhrifamiklum stöðum að reyna að finna leiðir til að stuðla að heilbrigðari venjum. Markmiðið er auðvitað ekki að henda tækninni út um gluggann heldur frekar að finna betur út hvenær tæknin er hagkvæm og sparar okkur tíma, og hvenær hún er óhollur tímaþjófur. Þar að auki er lýðræðisvinkill í þessu þar sem falsfréttir eru sagðar dreifast út um sex sinnum hraðar en venjulegar fréttir. Þetta er vegna þess að þær vekja upp sterkar tilfinningar hjá fólki. Ógnarhratt upplýsingaflæði nútímans kemur í veg fyrir að fólki finnst það hafa tíma að skoða sanngildi frétta í dag og netið er oft algjör ormagryfja þar sem fólk öskrar í eyrað hvert á annað og núanseruð umræða er þá víðsfjarri.

Að lokum enda ég á því sem Peter Gibbons sagði í myndinni Office Space, sem á enn betur við í dag en þegar myndin kom út: „Við höfum ekki mikinn tíma á þessari jörð! Okkur var ekki ætlað að sóa honum með þessum hætti! Mönnum var ekki ætlað að sitja í litlum klefum og glápa á tölvuskjái allan daginn.“

Höfundur er háskólakennari og tónskáld.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×