Skoðun

Stig­veldi stigveldanna

Erna Mist skrifar

Að skrifa er skilvirkasta leiðin til að hugsa. Líkt og í útreikningi þar sem maður kemst lengra í dæminu með því að skrifa það niður, kemst maður lengra í hugsuninni þegar maður kemur henni niður á blað. Þannig verða hugsanir að hugleiðingum; tilfinningar að uppgötvunum; upplifanir að lífsreynslum; atburðarásir að sögum. Tilveran öðlast samhengi þegar maður bindur hana í orð. 

Hver texti er sneiðmynd af huga þess sem framleiddi hann. Þar af leiðandi er lestur leið til að máta sig við ólíka hugsunarhætti. Þó hinn þögli samfélagssáttmáli leitist við að takmarka manneskjur við einn stöðugan persónuleika er hin sálræna staðreynd sú að hver manneskja samanstendur af mörgum persónuleikum, og þannig getur lestur hjálpað manni að uppgötva hliðarnar á sjálfum sér sem maður hefur bælt niður. Þess vegna lesum við - ekki til þess að leggja hluti á minnið, heldur til að viðhalda sambandinu við okkur sjálf.

Orðaforðinn er aðgangurinn að okkar innri veruleika. Hvert orð er lykill að nýrri merkingu; hvert hugtak opnar dyr að nýju innsæi; hvert orðasamband dýpkar skilning okkar á því sem við skiljum nú þegar. Hvernig áttar maður sig á eigin upplifunum ef maður á ekki orðin yfir þær? Hvernig áttar maður sig á eigin tilfinningum ef maður kann ekki að skilgreina þær? Hvað þýðir það raunverulega að orðaforði fari minnkandi; lestrarkunnátta dvínandi; skrifkunnátta hverfandi? 

Ólíkt stéttaskiptingum fortíðar mun stéttaskipting framtíðar hvorki markast við efnahagslegt né menningarlegt auðmagn, heldur málfærni. Í heimi þar sem leitarvélar gengisfella þekkingu og spjallmenni sjá um að útskýra hlutina fyrir okkur verður enginn eiginleiki jafn verðmætur og eiginleikinn til að skilgreina sinn veruleika sjálfur.

Höfundur er listmálari.


Tengdar fréttir

Á­minning um auð­lindir

Manstu hver þú varst áður en heimurinn sagði þér hver þú værir? Áður en bíómyndirnar lögðu drög að draumum þínum og samfélagsmiðlar komu á tilfinningalegu kvótakerfi í hausnum á þér til að úthluta athygli þinni til erlendra stórfyrirtækja? Manstu hver þú varst áður en undirmeðvitund þín varð að bandarískri nýlendu?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×