Erlent

Trump hyggst á­varpa stuðnings­menn sína eftir þing­festingu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump hyggst ávarpa stuðningsmenn sína frá Flórída eftir þingfestingu málsins í New York.
Trump hyggst ávarpa stuðningsmenn sína frá Flórída eftir þingfestingu málsins í New York. Getty/Alex Wong

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er sagður í baráttuhug en hann flýgur til New York í dag. Þar mun hann verða dreginn fyrir dómara á morgun og látinn svara ákærum í tengslum við mútugreiðslur til klámmyndastjörnunnar Stormy Daniels.

Erlendir miðlar segja Trump hafa í huga að fljúga aftur til Flórída að lokinni þingfestingunni á morgun og ávarpa stuðningsmenn sína.

Joe Tacopina, lögmaður Trump, sagði í samtali við This Week á ABC í gær að Trump væri að undirbúa sig undir átök og að þeir myndu leitast við því að ljúka málinu eins fljótt og auðið væri.

Ákæran í málinu hefur ekki verið gerð opinber er ákæruliðirnir eru sagðir verða fleiri en 30. Trump er sagður hafa fundað stíft með ráðgjöfum sínum og lögmönnum undanfarna daga.

Yfirvöld hafa staðfest að Trump muni fá öryggisfylgd frá Flórída til New York, þar sem hann mun gefa sig fram. Málið verður tekið fyrir á morgun klukkan 14.15 að staðartíma, klukkan 18.15 að íslenskum tíma.

Trump verður ekki settur í handjárn og það er óvíst hvort formleg handtökumynd af honum verður gerð opinber.

Boðað hefur verið til mótmæla í New York í hádeginu á morgun og öryggisgæsla í borginni verður efld til muna.


Tengdar fréttir

Trump ekki settur í hand­járn

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti verður ekki settur í handjárn þegar hann verður leiddur fyrir ákærudómstól í New York í vikunni. Viðbúnaður verður mikill og gert er ráð fyrir því að tugir leynilögreglumanna taki á móti Trump.

Keppi­nautar Trump fylkja sér að baki honum eftir á­kæru

Leiðtogar Repúblikanaflokksins og helstu keppinautar Donalds Trump um útnenfningu flokksins fyrir forsetakosningar næsta árs fylktu sér að baki honum eftir að hann var ákærður í gær. Búist er við því að Trump gefi sig fram við yfirvöld í New York í næstu viku.

Trump ákærður í New York

Meðlimir ákærudómstóls í New York hafa lagt til að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, verði ákærður. Nákvæmlega fyrir hvað liggur ekki fyrir enn en búist er við því að Alvin Bragg, umdæmissaksóknari í Manhattan, opinberi ákæruna á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×