Engum skal heldur dyljast að Fréttablaðið var enn stór þátttakandi á fjölmiðlamarkaði undir það síðasta - jafnvel þótt ekki hafi verið jafnvægi milli tekna og gjalda síðustu árin. Tekjur útgáfufélagsins Torgs námu 2,4 milljörðum króna árið 2021, en auglýsingatekjur RÚV sama ár námu rétt ríflega tveimur milljörðum.
Brotthvarf Torgs er því að minnsta kosti jafn stór viðburður í peningalegu tilliti og ef RÚV myndi hverfa af auglýsingamarkaði. Nokkuð sem hefur verið keppikefli unnenda frjálsrar fjölmiðlunar um áratugaskeið. Þessir peningar - sem áður runnu til Torgs - munu að líkindum að langstærstum hluta skila sér til annarra innlendra auglýsingamiðla.
Umsvif RÚV á auglýsingamarkaði eru markaðsbrestur sem ætti að vera eitur í beinum hægrisinnaðra stjórnmálamanna, þótt ekkert gerist kynslóðum saman.
En jafnvel þótt fall Fréttablaðsins kunni að vera umtalsverð búbót fyrir einhverja, var föstudagurinn líka sorgardagur fyrir fjölmiðlun í landinu. Hátt í hundrað manns missa vinnuna og fornfræg rödd þagnar. Því hefur verið sorglegt að verða var við Þórðargleði úr sumum kreðsum. Allir ættu að geta sýnt samkennd með kollegum í faginu sem nú horfa fram á óvissutíma. Vonandi finnur allt þetta fólk sér farveg við hæfi.
Í viðtali á Vísi bar fráfarandi ritstjóri Fréttablaðsins sig illa yfir afskiptum ríkisins af fjölmiðlamarkaði. Það voru orð að sönnu. Umsvif RÚV á auglýsingamarkaði eru markaðsbrestur sem ætti að vera eitur í beinum hægrisinnaðra stjórnmálamanna, þótt ekkert gerist kynslóðum saman. Allir sem starfa á markaðnum kannast svo við yfirboð úr Efstaleiti þegar kemur að launum og afþreyingarefni.
Stærsta ástæða falls Fréttablaðsins var þó einfaldlega sú að nútíminn knúði dyra. Ekki var lengur rekstrargrundvöllur fyrir prentað blað sem dreift er frítt í hvert hús. Vandræðagangur var á dreifingu blaðsins mörg síðustu árin. Kostnaðurinn var sem myllusteinn um háls félagsins, og erfitt var að fá vinnuafl sem sinnti dreifingunni sem skyldi.
Að einhverju leyti voru dauðateygjur Fréttablaðsins tapað stríð frá upphafi.
Við eigendaskipti á blaðinu urðu breytingar á efnistökum. Kannski gengu þær of langt, of fljótt. Lesendur prentmiðla eru íhaldssamir. Fréttablaðið var alla tíð óboðinn gestur inn á heimili fólks. Lengst af var passað að troða engum um tær. Skoðanir áttu að vera kurteislega settar fram og endurspegla allt hið pólitíska litróf. Fréttablaðið átti aldrei að vera Morgunblaðið.
Að einhverju leyti voru dauðateygjurnar þó tapað stríð frá upphafi. Prent er einfaldlega á undanhaldi. Það er ekki séríslenskt fyrirbæri. Vefsíða Fréttablaðsins náði aldrei flugi. Tilraunir til að breyta dreifingunni heppnuðust ekki. Því fór sem fór.
Fréttablaðið var stór kafli í íslenskri fjölmiðlasögu. Á löngu tímabili öflugt mótvægi við ríkisbáknið í Efstaleiti og sérhagsmunamiðla. Syrgjum það og vonum að þær raddir sem þar hljómuðu um tíma finni sér nýjan vettvang.
Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.