Enski boltinn

Segir að Kane ætti að skammast sín fyrir leikaraskapinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane fellur til jarðar eftir að Abdoulaye Doucoure stjakaði við honum.
Harry Kane fellur til jarðar eftir að Abdoulaye Doucoure stjakaði við honum. getty/Alex Livesey

Harry Kane ætti að skammast sín fyrir að fiska Abdoulaye Doucoure út af í leik Everton og Tottenham í gær. Þetta segir Jamie Carragher.

Tvö mörk voru skoruð og tvö rauð spjöld fóru á loft þegar Everton og Spurs skildu jöfn, 1-1, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Kane kom Spurs yfir með marki úr vítaspyrnu á 68. mínútu. Tíu mínútum áður var Doucoure rekinn af velli fyrir að ýta við Kane. Carragher, sem fjallaði um leikinn á Sky Sports, sakaði Kane um leikaraskap í því atviki.

„Doucoure gerði mistök og ég er viss um að Sean Dyche [knattspyrnustjóri Everton] lætur hann vita af því,“ sagði Carragher.

„Ef ég hefði gert þetta á vellinum hefði ég skammast mín og ef ég hefði séð son minn gera þetta, það hefði kannski hjálpað liðinu hans að vinna ef mótherjinn er manni færri en þegar hann kæmi aftur í bílinn eftir leik hefði ég sagt honum að gera þetta aldrei aftur á fótboltavellinum.“

Gary Neville varði hins vegar Kane og sagði viðbrögð hans eðlileg og að þau hefðu orðið til þess að Doucoure var rekinn af velli. Annars hefði dómari leiksins sennilega látið gult spjald nægja.

Doucoure var ekki eini leikmaðurinn sem fékk rautt í leiknum í gær. Tottenham-maðurinn Lucas Moura var einnig rekinn af velli á 88. mínútu. Tveimur mínútum síðar jafnaði Michael Keane fyrir Everton og þar við sat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×