Körfubolti

UConn vann marsfárið með yfirburðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Connecticut háskólans fagna Adama Sanogo sem var valinn besti leikmaður úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans.
Leikmenn Connecticut háskólans fagna Adama Sanogo sem var valinn besti leikmaður úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans. getty/Jamie Schwaberow

Connecticut varð meistari í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt eftir sigur á San Diego State, 76-59.

Þetta var fimmti meistaratitill UConn en þeir hafa allir unnist á síðustu 24 árum. UConn hefur unnið alla fimm úrslitaleikina sem liðið hefur komist í og aðeins tapað einum leik í undan- og úrslitum úrslitakeppninnar.

Adama Sanogo var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. Miðherjinn efnilegi var með sautján stig og tíu fráköst í úrslitaleiknum í nótt.

UConn var langsterkasta liðið í úrslitakeppninni, eða marsfárinu eins og hún er jafnan kölluð. Liðið vann leikina sína sex með tuttugu stigum að meðaltali sem er það fjórða mesta frá því úrslitakeppninni var breytt 1985 og liðum fjölgað í 64. 

UConn vann alla leiki sína í úrslitakeppninni með tveggja stafa mun. San Diego veitti þeim reyndar góða keppni í nótt og minnkaði muninn í fimm stig. En nær komst liðið ekki og UConn tók aftur fram úr og vann að lokum sautján stiga sigur.

Tristen Newton var stigahæstur hjá UConn með nítján stig. Hann tók einnig tíu fráköst. Sanogo var með sautján stig og tíu fráköst eins og áður sagði og Jordan Hawkins skoraði sextán stig. Keshad Johnnson skoraði fjórtán stig fyrir San Diego.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×