Báðir stjórar sáu rautt þegar Tottenham lagði Brighton

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Upp úr sauð á hliðarlínunni.
Upp úr sauð á hliðarlínunni. vísir/Getty

Tottenham Hotspur vann gríðarlega mikilvægan sigur á Brighton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Augljóst var að bæði lið gerðu sér vel grein fyrir mikilvægi leiksins en eitt stig skildi liðin að í fimmta og sjötta sæti deildarinnar þegar kom að leik dagsins og bæði lið að eygja þess von að ná fjórða sætinu eftirsótta sem skilar sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Son Heung Min náði forystunni fyrir heimamenn strax á tíundu mínútu en Lewis Dunk jafnaði metin fyrir gestina fyrir leikhlé og staðan því jöfn í hálfleik, 1-1.

Eftir tæplega klukkutíma leik sauð upp úr á hliðarlínunni þar sem stjórar liðanna, Ítalirnir Roberto De Zerbi og Christian Stellini, létu hvorn annan heyra það en athygli vakti að þeir áttu í hörðum orðaskiptum áður en flautað var til leiks. Dómari leiksins, Stuart Attwell, sá sig knúinn til að senda báða stjórana upp í stúku og voru því bæði lið stjóralaus síðasta hálftímann.

Að endingu reyndist Harry Kane munurinn á liðunum því hann skoraði það sem reyndist sigurmarkið á 79.mínútu og lokatölur 2-1 í leik sem Brighton menn munu eflaust hugsa VAR dómgæslunni þegjandi þörfina en nokkrar umdeildar ákvarðanir féllu gegn liðinu í leiknum þar sem meðal annars var dæmt mark af Kaoru Mitoma auk þess sem hann virtist eiga að fá vítaspyrnu í leiknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira