Körfubolti

„Þá komu þeir með stóran þrist sem slökkti vonarneistann í okkur"

Jón Már Ferro skrifar
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

„Mér fannst Haukar eiga skilið að vinna þennan leik stærra. Við vorum sjálfum okkur ekki líkir. Það klikkaði andlega að vera með hausinn skrúfaðan á fannst mér. Vorum að einbeita okkur að hlutum sem við getum ekki stjórnað," sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, eftir 90-83 tap gegn Haukum á Ásvöllum í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Subway-deildar karla.

„Mér fannst við spila stundum ágætis vörn en þeir náðu alltaf að klára með sóknarfrákasti. Þannig við vorum ekki að klára vörnina okkar og náðum lítið að hlaupa í bakið á þeim."

Þór var oft í fínum séns á að komast nálægt Haukunum en heimamenn svöruðu því alltaf og héldu gestunum frá sér. Lykilleikmenn Þórs gerðu ekki nóg til að ná tökum á leiknum. Hilmar Smári Henningsson, leikmaður Hauka, gerði Þór oftar en ekki lífið leitt og skoraði 32 stig í leiknum.

Lárus gefur skipanir til sinna manna.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

„Þetta vindur upp á sig. Við gefum þeim sóknarfrákast í byrjun leiks sem að þeir ná í þriggja stiga skot sem gerir það að verkum að leikmenn eru orðnir heitir. Svo þegar við förum að spila góða vörn þá, eru þeir orðnir heitir, og hitta úr mjög erfiðum skotum. Alltaf þegar við vorum að narta í hælana á þeim þá komu þeir með stóran þrist sem slökkti vonarneistan í okkur," sagði Lárus.

Leikmenn Þórs náðu ekki nógu oft frákastinu þegar Haukarnir klúðruðu skoti.

„Í rauninni, mér fannst það vera algjört lykilatriði í þessum leik. Þeir fengu mjög mikið af öðrum tækifærum og það gefur þeim blóð á tennurnar hvað þeir fengu auðveld sóknarfráköst."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×